Rafræn byggingargátt – Tímamót í stjórnsýslu byggingarmála
Október 2017
Talsverð tímamót verða í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu byggingarmála í landinu þegar tekin verður í notkun rafræn byggingargátt. Unnið hefur verið að gerð gáttarinnar mörg undanfarin ár og standa vonir til þess að hún verði að fullu komin í notkun innan fárra mánaða. Markmið byggingargáttarinnar er að gera stjórnsýslu byggingarmála gagnsærri og skilvirkari og tryggja að gæða- og eftirlitskerfið virki.
Gerð gagnagrunna og innleiðing rafrænnar stjórnsýslu er eitt mikilvægasta verkefni Mannvirkjastofnunar þessi misserin. Vinna við byggingargátt byggir að vissu leyti á vinnu og útboðum vegna rafmagnsöryggisgáttar sem er komin í víðtæka notkun meðal rafverktaka, dreifiveitna og skoðunarstofa um allt land. Um er að ræða heildstætt upplýsingakerfi með nokkrum sjálfstæðum kerfiseiningum sem tengja rafverktaka, rafveitur og skoðunarstofur saman við upplýsingakerfi Mannvirkjastofnunar í ferlum sem varða rafmagnsöryggi.
Rafmagnsöryggisgáttin hefur auðveldað öll rafræn skil á upplýsingum og á sama tíma auðveldað mjög samskipti á milli fyrrgreindra aðila.
Mikilvægir áfangasigrar hafa unnist í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu á undanförnum misserum. Reynsla af notkun rafmagnsöryggisgáttar er góð. Sömu sögu er að segja af Brunaverði, rafrænni gátt fyrir eldvarnaeftirlit. Brunavörður auðveldar mjög störf eldvarnaeftirlitsmanna en í hann eru vistaðar úttektir slökkviliða og þjónustuaðila og gögn sem tengjast þeim. Enn má nefna rafrænar gáttir sem halda utan um vatnsúðakerfi og viðvörunarkerfi. Allar auðvelda þessar gáttir störf eftirlitsaðila og hagsmunaaðila í senn.
Öll gögn vistuð
Í rafrænu byggingargáttinni verða vistuð öll gögn vegna mannvirkja, allt frá umsókn um byggingarleyfi til lokaúttektar. Þar verða vistaðar umsóknir og útgefin byggingarleyfi, öll gögn sem leyfin byggjast á, hönnunargögn, teikningar og skoðunarskýrslur. Þar verður að finna lista yfir löggilta hönnuði og iðnmeistara og byggingarstjóra með starfsleyfi ásamt reglum um gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra, hönnuða og iðnmeistara. Þar verða ennfremur skoðunarhandbækur og verklagsreglur faggiltra skoðunarstofa.
Mannvirkjastofnun hefur lokið við gerð skoðunarhandbóka en þær gegna lykilhlutverki í því að tryggja einsleitt eftirlit. Þær stórauka einnig möguleika framkvæmdaaðila til að stunda eigið eftirlit. Lokið hefur verið við gerð smáforrits fyrir snjallsíma sem nýtist skoðunarmönnum þannig að þeir skrá niðurstöður skoðunar með stöðluðum hætti samkvæmt skoðunarhandbókum.
Smíði byggingargáttarinnar er mjög umfangsmikið og fjárfrekt verkefni. Það er sannarlega tilhlökkunarefni fyrir okkur sem störfum að mannvirkjamálum að geta tekið hana að fullu í notkun.
Höfundur er forstjóri Mannvirkjastofnunar.