Borhola Hoffelli – 30-40l/s, 82-83°C

Heimild:  

 

Smella á mynd til að heyra umfjölun

Október 2018-7
RARIK telur óhætt að ráðast í að leggja hitaveitu til Hafnar í Hornafirði. Fyrstu álagsprófunum á nýjustu borholunni í Hoffelli er lokið og stendur holan undir öllum væntingum.
Jarðhitasvæðið í Hoffelli hefur lengi laðað til sín ferðamenn sem baða sig í heitum pottum. RARIK hefur látið bora fjórar djúpar holur á svæðinu í leit að nægu heitu vatni fyrir Hornafjörð. Undanfarnar vikur hefur farið fram prufudæling á fjórðu holunni en hún var boruð í sumar. „Við erum að dæla um 35 sekúndulítrum en aðalmálið er það að við erum að sjá hvernig það hegðar sér, svæðið í heild og eins hvað við getum dælt til lengri tíma litið úr holunni,“ sagði Þórhallur Halldórsson, verkefnisstjóri hjá RARIK þegar fréttastofa leit við í Hoffelli í síðasta mánuði.

Gefur 30-40 lítra af 82-83°C heitu vatni á sekúndu

Fyrstu prófunum á vegum ÍSOR er nú lokið og stendur holan undir væntingum. Hún reynist aflmeiri en fyrri holur, gefur 30-40 lítra á sekúndu af 82-83 gráðu heitu vatni og virðist anna ein og sér meðalnotkun á Höfn. Hola 3 sem boruð var á undan var í apríl 2016 talin gefa allt að 30 sekúndulítra af 75 gráðu heitu vatni. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir í samtali við fréttastofu að nú séu allar forsendur til að undirbúa hitaveitulögn til Hornafjarðar. Ýmis undirbúningur er þó eftir. Endanleg lagnaleið liggur ekki fyrir en um 20 kílómetrar eru úr Hoffelli til Hafnar. Þá hefur ekki verið ákveðið hvort affallsvatn yrði leitt til baka ofan í kerfið.

Fjarvarmaveitan orðin óhagkvæm

RARIK rekur fjarvarmaveitu á Höfn sem hitar vatn með rafmagni eða olíu en rekstur slíkra veitna er orðinn óhagkvæmari en áður. Ástæðan er hátt olíuverð og þá hefur raforka til fjarvarmaveitna, ótrygg skerðanleg orka, hækkað meira í verði en forgangsraforka. Þá hefur fjarvarmaveitan á Höfn ekki dugað öllum. „Hér er einn þriðji húsa kyntur með rafmagni, þannig að fyrir þá íbúa myndi ég halda að yrði umtalsverð breyting að fá hitaveitu og nægt heitt vatn. Auðvitað gerir maður sér væntingar um að hitaveita verði ódýrari en rafmagnskynding og fjarvarmakynding þegar inn í framtíðina er litið,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.

RARIK ætlar svo að láta bora eina holu til viðbótar í Hoffelli; varaholu sem hægt yrði að grípa til ef búnaður í vinnsluholum skyldi bila.

Fleira áhugavert: