Nýtt vatnsár 1.okt – Öll miðlunarlón full..

Heimild:  

 

Október 2017

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar er góð í byrjun nýs vatnsárs. Öll miðlunarlón fyrirtækisins eru full og horfur fyrir afhendingu orku eru góðar.

Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert, en um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Þegar haustrigningum lýkur og vetur gengur í garð er byrjað að nýta miðlunarforðann. Vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Staðan í miðlunum Landsvirkjunar eftir síðastliðinn vetur var mjög góð, sérstaklega á Þjórsársvæðinu. Það voraði snemma og fór að safnast í miðlunarlónin strax í byrjun maí. Innrennsli í maí var kröftugt en júní var kaldari en í meðalárferði og dró þá úr innrennsli í lónin. Jökulbráð hófst að marki um miðjan júlí og öll miðlunarlón voru full um miðjan ágúst.

Innrennsli í september var með þeim hætti að allar miðlanir héldust fullar og rann vatn á yfirfalli við allar miðlanir fyrirtækisins. Síðustu viku mánaðarins bætti verulega í þannig að met var slegið í yfirfallsrennsli við Hálslón. Í þessum vatnavöxtum tvöfaldaðist einnig afrennsli af vatnasviði Þjórsár sem erfitt var að hemja sökum þess að miðlunarlónin voru full.

Í byrjun nýs vatnsárs eru öll miðlunarlón ennþá full og talsvert rennsli á yfirfalli. Horfur fyrir rekstur kerfisins og afhendingu orku eru góðar, ný virkjun á Þeistareykum er að hefja rekstur og næsta vor bætist stækkun Búrfellsstöðvar við. Landsvirkjun er því í góðri stöðu að tryggja orkuafhendingu til viðskiptavina sinna á komandi vatnsári.

 

Smella á myndir til að stækka

Fleira áhugavert: