Stærsta bílasýningin – Tesla umtalaðasti bíllinn..

Heimild:  

 

September 2017

Sigurður Már Jónsson

Stærsta bílasýning heims fer nú fram í Frankfurt (Frankfurt Motor Show) í Þýskalandi. Af fréttum að dæma virðist rafmagnsbíllinn hafa stolið senunni. Og Tesla er umtalaðasti bíllinn þó hann sé ekki einu sinni á svæðinu!

Rafmagnsbílar hafa verið teknir misalvarlega til þessa og á sýningunni í Frankfurt fyrir tveimur árum vöktu þeir ekki svo mikla athygli, í það minnsta ekkert í líkingu við það sem er núna. Í kjölfarið kom hins vegar upp eldsneytishneyksli Volkswagen og í framhaldinu hafa mörg lögmál breyst. Meðal annars vegna tortryggni í garð margra hefðbundinna framleiðenda. Sala rafmagnsbílar er núna innan við 1% af sölu bíla í heiminum og sumir framleiðendur hafa nánast alveg hundsað tilvist og þróun þeirra. Margt bendir til þess að það sé að breytast en áður hefur verið vikið að þróun þeirra í pistlum hér.

Bílasýningar snúast í aðra röndina um að veita sýn inn í framtíðina og framleiðendur keppast um að hafa sem framúrstefnulegasta bíla til sýnis. Oft er erfitt að henda reiður á hvert þróunin stefnir og menn fá ekki endilega gleggri mynd af því á svona sýningum enda sýna framleiðendur sjaldnast öll sín spil. Flestir þeir hugmyndabílar sem eru sýndir komast aldrei í framleiðslu. Fréttamenn Financial Times voru hins vegar sannfærðir um það núna að alvaran sé að færast yfir þegar kemur að rafmagnsbílum. „Við erum að færast frá rafmögnuðum draumi yfir í rafmagnaða framtíð,” sagði Patrick McGee, einn fréttamanna FT í viðtali á sýningunni.

Rafbílar verði stór þáttur í vörulínum

frankfurtMargir af stóru bílaframleiðendunum eru nú að opna rafmagnsbílalínu sína og sumir þeirra virðast ætla að fara alla leið þar. Birgjar framleiðendanna eru einnig farnir að undirbúa sig undir skiptin. Mercedes-Benz kynnti vörumerkið EQ á bílasýningunni í París í fyrrahaust en það nær yfir alla rafbíla þýska lúxusbílaframleiðandans. Mercedes-Benz kynnti nýjan og spennandi bíl á bílasýningunni í Frankfurt. Um er að ræða hugmyndabíl sem ber nafnið EQA og er hreinn rafbíll. Bíllinn mun koma á markað árið 2020 og verður þá annar bíllinn í röðinni af 10 hreinum rafbílum sem Mercedes-Benz mun kynna á næstu 5 árum. Bíllinn fékk mikla athygli en hann er framúrstefnulegur í hönnun en hann er 5 dyra stallbakur. EQA er með tvo rafmótora sem framleiða samtals 200 kW af hreinu afli til hjólanna. Drægni bílsins er allt að 400 km við bestu aðstæður segir í frétt  frá framleiðanda. .

VW hyggst bjóða upp á 50 rafmagnsbíla 2025 og að allur floti þeirra verði með rafbílakost 2030. BMW ætlar að vera með 15 hreina rafmagnsbíla 2025. Af þessum fáu dæmum má ráða að miklar breytingar séu framundan. Þeir framleiðendur sem þegar hafa náð góðum tökum á framleiðslu rafmagnsbíla munu ekki gefa eftir sína stöðu og við sjáum t.d. að Nissan boðar mjög metnaðarfulla útgáfu af Leaf bílnum sem hefur náð sterkri markaðsstöðu.

Sem gefur að skilja hafa bílaframleiðendur misjafna nálgun á orkuskipti í bílaiðnaðinum. Og rafmagnsbílar eru ekki hafnir yfir vafa þegar kemur að umhverfismálum. Margt bendir þó til þess að rafmagnsbílar geti valdið miklum straumhvörfum í framleiðslu og þróun bíla og um leið bílaiðnaðarins. Hugsanlega mun framleiðsla þeirra draga úr framleiðni bílgreinarinnar og jafnvel hleypa nýjum framleiðendum inn á markaðinn með umtalsverða markaðshlutdeild eins og á við í tilfelli Tesla. Nú eru merki þess að slíkir bílar séu farnir að seljast talsvert meira en áður hér á landi og við sjáum mikinn fjölda nýrra hleðslustöðva í notkun. Ljóst er að það verður spennandi að fylgjast með þróun mála næstu misseri.

Fleira áhugavert: