Hreinsun skólps – Reglugerðir eru brotnar..
September 2017 – Mbl
Litlu áorkað og reglum ekki fylgt
Árið 2014 var 68% skólps frá þéttbýlum hreinsað með eins þrepshreinsun, tvö% með tveggja þrepa og eitt% með frekari hreinsun en tveggja þrepa. Aftur á móti var 24% skólpsins ekkert hreinsað og ekki er vitað hvernig 5% þess var hreinsað eða hvort það hefði yfirleitt fengið nokkra hreinsun.
Annars staðar á landinu skortir t.d. hreinsun á öllum stærri fráveitum (með yfir 2.000 p.e.) í þéttbýli á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra en uppfærðar upplýsingar vantar um stöðu á hreinsun skólps á Vesturlandi. Þetta kemur fram í samantekt um stöðu fráveitumála á Íslandi árið 2014 sem Umhverfisstofnun vann.
Af því skólpi sem myndaðist í þéttbýli á landinu var 94% losað í sjó, 5% í ár og stöðuvötn og 1% í ármynni eða grunnvatn. Af því skólpi sem var talið hreinsað með eins þreps hreinsun var um 84% hreinsað í sameiginlegum hreinsistöðvum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við Ánanaust og Klettagarða. Um er að ræða tæplega 60% þess skólps sem verður til í landinu. Segir jafnframt í skýrslunni.
Ekki farið eftir reglugerðum
„Niðurstöður skýrslunnar benda til að fremur litlu hafi verið áorkað í fráveitumálum síðan síðasta stöðuskýrsla var gefin út árið 2010 og mikið hafi vantað upp á að ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp væru uppfyllt. Það fyrirkomulag sem stuðst er við í dag hefur ekki skilað þeim tilætlaða árangri sem krafist er í lögum og reglugerðum.“ Þetta kemur fram í skýrslunni.
Sýni ekki tekin nægilega oft
Hreinsistöðvar sinna ekki nægilega reglubundnu eftirliti. Rétt framkvæmd sýnataka og nægilegur fjöldi mælinga er nauðsynlegur til að skera úr um hvort tiltekin hreinsistöð nær þeim árangri sem að var stefnt.
„Samantektin leiddi í ljós að losunarmælingar voru almennt ekki gerðar í samræmi við kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp og því erfitt að draga ályktanir um hvort hreinsivirki séu í raun að skila þeim árangri sem þeim var ætlað.“ Í samantekinni er vísað til nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem er m.a. rekstraraðili tveggja helstu hreinsistöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í henni kemur fram að mælingar í hreinsistöðvunum við Ánanaust og Klettagarða eru ekki jafn tíðar og ákvæði reglugerðar mæla fyrir um.
Uppfært kl 17:35: Eftir að skýrslan og fréttin voru birt vilja Veitur koma því á framfæri að ekki séu um að ræða aðeins fjögur sýni sem tekin voru á ári, heldur hefði verið farið í fjórar ferðir til að taka sýni og samtals meira en 50 sýni tekin í þau skipti.
Skýra ábyrgðaskiptingu og fjármögnun
Í skýrslunni eru bent á úrbætur sem þyrfti að fara í. Það eru meðal annars bent á að skýra þurfi ábyrgðarskiptingu milli sveitarfélaga sem rekstraraðila fráveitna, fyrirtækja, heimila í dreifbýli og eftirlitsaðila þ.e. heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.
Einnig verður farið í átak í því að að fá sveitarfélög til að sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Tryggt verði að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi þar sem þau eru ekki fyrir hendi og að starfsleyfishafi sinni innra eftirliti og eftir atvikum vöktun viðtaka. „Ef með þarf beiti heilbrigðisnefndir þvingunarúrræðum til að tryggja að aðilar uppfylli skyldur sínar.“ segir ennfremur.
Í skýrslunni kemur fram að flutningsaðilar og móttöku- og meðferðaraðilar seyru virðast ekki allir hafa haft starfsleyfi heilbrigðisnefnda auk þess sem aðeins 10% safnræsa og 21% hreinsistöðva höfðu starfsleyfi.
Maí 2017 – Kjarninn
Sérfræðingar virðast flestir vera sammála um að fráveitumálum og skólphreinsun sé ábótavant í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglugerðir og lög hvernig fráveitumálum eigi að vera háttað er pottur brotinn víða varðandi þau málefni. Eitt brýnasta málið, tengt mengun vegna frárennslis, er svokallað örplast sem rennur með skólpi og fráveituvatni út í sjóinn óhindrað. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferðamennsku, stóriðju og ofanvatnsmengun.
Fremur reglan en undantekningin að þéttbýli hunsi reglur
Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að það sé fremur reglan en undantekningin að þéttbýli á landinu hafi ekki uppfyllt lög og reglugerð um fráveitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síðasta lagi árið 2005 en þá rann út síðasti fresturinn.
Tryggvi segir að nauðsynlegar framkvæmdir séu dýrar og til dæmis sé venjulegt að veitukerfið sé einungis tvöfaldað um leið og verið sé að taka upp einhverja götuna og endurnýja í henni. Hann telur að miðað við þróunina hingað til muni líklegast taka einhverja áratugi fyrir sveitarfélögin að framfylgja kröfum laga og reglugerðar að fullu.
Að sögn Tryggva eru áhrif mengunar af völdum skólps misjöfn eftir því hversu viðkvæmur staðurinn í náttúrunni sem skólpið er leitt út í er. Hann segir að mengunin fari líka eftir fjölda íbúaígilda eða svokölluðum persónueiningum sem geta verið talsvert fleiri en íbúarnir. Magn mengunarefnanna er metið út frá persónueiningum en ein persónueining jafngildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sólarhring. Hann bendir á að vegna atvinnurekstrar sé oft tvö til þrefalt meira af persónueiningum en íbúum.
Ferðamennska eykur álag á kerfið
Fleiri þættir spila inn í skólpmengun og einn þeirra er fjölgun ferðamanna. Samkvæmt Ferðamálastofu komu tæplega 1.800.000 ferðamenn til landsins á síðasta ári og jókst um 39 prósent frá árinu áður en ekkert lát virðist vera á þeirri fjölgun. Einn ferðamaður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein persónueining; sama mengun kemur frá honum og venjulegum íbúa. Tryggvi segir að ferðamennskan auki álagið á staðinn í náttúrunni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsistöðvarnar. Hann segir að hreinsistöðvarnar nái aldrei nema hluta af menguninni, mismikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsibúnaðurinn ræður ekki við sleppi því í gegn og komist út í umhverfið.
Annar þáttur sem Tryggvi bendir á í sambandi við vanda með kerfið er vatnsnotkun hjá almenningi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara ósparlega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðslur. Bæði vatnsleiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borgina og bæina og eins í lögnunum fyrir frárennsli,“ segir hann. Kostnaður sé gríðarlegur í stórum hreinsistöðvum en sá kostnaður miðist við vatnsmagnið en ekki beint mengun vatnsins. Hann segir að þannig aukist umfangið vegna aukavatns á öllum búnaði bæði í lögnum og í hreinsibúnaði sé hann til staðar.
Örplast fer beint út í sjó
Sumarið 2016 vann MATÍS skýrslu um losun örplasts með skólpi í samstarfi við Sænsku umhverfisrannsóknarstofnunina (IVL), Finnsku umhverfisstofnunina (SYKE) og Aalto-háskólann í Finnlandi. Rannsakað var hvort skólphreinsistöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverfið. Plastagnir myndast með tvenns konar hætti, annars vegar með niðurbroti af stærra plasti og hins vegar geta þetta verið öragnir sem notaðar eru í til dæmis snyrtivörur. Að mati sérfræðinga ógna þær lífríki hafsins en í skýrslunni er greint frá því að eina hreinsunin sem framkvæmd er á Íslandi, meðal annars í Klettagarðastöðinni og skólphreinsistöðinni í Hafnarfirði, sé grófsíun. Agnir sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra fara gegnum stöðvarnar og út í umhverfið. Annað er upp á teningnum í Svíþjóð og Finnlandi þar sem 99 prósent öragna setjast í óhreinindin sem skiljast frá fráveituvatni eftir forhreinsun. Ljóst er því að úrbóta er þörf í hreinsistöðvum á Íslandi.
Vandamálið hverfur ekki
Í öðru lagi segir hún að áhrifa gæti sem minna hafa verið rannsökuð og vitað er um. Hrönn segir að hugsanlega hafi plastögnin sjálf áhrif á lífverur. Þegar plastögnin sé orðin mjög lítil þá getur hún mögulega komist yfir þarmaveggina, út úr þörmunum og inn í blóðrásina. Og þegar hún sé farin að flakka um líkamann með blóðrásinni þá geti hún komist hvert sem er. Ekki er vitað um áhrifin af því, að sögn Hrannar, og erfitt að meta.
Hrönn segir að Íslendingar verði að hugsa skólphreinsun upp á nýtt og fara að taka ábyrgð á þessum hlutum. Ekki sé einungis mikilvægt að huga að lífrænni mengun heldur verði að skilja að plastagnir og lyfjaleifar komi úr skólpinu sem fer út í sjó og menga út frá sér. Plastið brotni ekki niður og því hverfi vandamálið ekki þrátt fyrir að því sé dælt út í sjó.