Rakastig – Æskilegt rakastig innandyra?

Heimild:  

 

Hvaða rakastig er æskilegt að hafa innandyra og hvað er það vanalega hér á Íslandi?

Rakastig í lofti er háð rakamagni lofts og er ýmist gefið upp sem kg vatnsgufa á kg þurrt loft eða, sem algengara er í almennu tali, hlutfall raka af hámarksrakamagni sem loft getur innihaldið; % hlutfallsraki (%HR).Rakamagn sem loft getur mest haldið (rakamettun) er mjög háð hitastigi, loft við 20 °C getur þannig mest haldið 17,9 g vatns á rúmmetra en við 5 °C er mettunarrakinn aðeins 6,8 g/m3. Loftraki í útilofti hérlendis er að meðaltali oft á bilinu 78-82 %HR alla mánuði ársins, loftið inniheldur þá 78-82% af mettunarraka lofts með þann útihita sem er hverju sinni; útiloftrakinn verður nærri 100% þegar rignir en fellur niður í jafnvel 40% þegar þurrt er og hlýtt.Loftræsing bygginga felst í því að taka inn útiloft (um glugga eða loftræstikerfi) og hleypa út sambærilegu magni innilofts.

Þótt almennt líði fólki vel við háan loftraka getur hár loftraki innandyra valdið vandræðum.

Rakamagn í innilofti er háð aðstæðum hverju sinni, bæði útilofti og inniaðstæðum; útihita, loftraka í útilofti, innihita og loks rakagjöf til innilofts.Rakagjöfin er háð starfsemi í byggingu, og er til dæmis iðulega miðað við að vegna notkunar íbúðarhúsnæðis meðalfjölskyldu verði rakagjöfin á bilinu 6-10 kg vatnsgufa á sólarhring. Heildarrakagjöfin dreifist á allt loft sem streymir um húsið á sólarhring og rakagjöf á hvern loftræstan rúmmetra fer því eftir magni loftskipta í húsinu, það er hversu mikið er loftræst.

Fólki líður almennt vel við háan loftraka, loftraki útilofts hentar flestum ágætlega. Svo hár loftraki í innilofti mun þó valda vandræðum þar sem loftrakinn getur hækkað enn frekar vegna kælingar lofts á köldum flötum (meðal annars rúðugleri) og rakaþétting getur átt sér stað. Þegar loftraki fer yfir 80% þá er veruleg hætta á sveppavexti, til dæmis myglu.

Það er því alltaf miðað við að halda hlutfallsraka innilofts vel undir 80% og iðulega miðað við að inniloftraki eigi ekki að fara yfir 40-45 %HR þegar kalt er úti.Þegar mikið er loftræst að vetrarlagi, rakamagn í útilofti er lítið og mikil loftræsing veldur því að rakagjöf til innilofts dreifist á mikið loftmagn, þá getur inniloftraki orðið lágur eða jafnvel farið undir 20 %HR. Það er vitað að við slíkar aðstæður þorna slímhúðir og fólk getur fundið fyrir óþægindum í augum (blikkar augum meira) og þurrki í kverkum. Þetta er óþægilegt en ekki talið heilsuspillandi í sjálfu sér.

Hlutfallsraki innilofts háð rakagjöf til innilofts og útiaðstæðum á höfuðborgarsvæðinu (reiknað samkæmt prEN ISO 13788rev).

Ör skipti milli mikils og lítils loftraka (til dæmis að fara oft á milli innilofts við 20 %HR og útilofts við 80 %HR) valda ertingu í slímhúðum sem er talin geta aukið hættu á kvefi. Vandamál vegna loftraka eru þó oftast vegna of mikils loftraka en ekki of lítils loftraka.Út frá útiaðstæðum, innihita og áætlaðri rakagjöf til innilofts má áætla inniloftraka eins og sýnt er á línuriti. Í reynd getur loftraki í innilofti sveiflast mikið innan sólarhrings og línuritið sýnir sennilegt meðalástand mánaðar.Loftraki innilofts verður lægri að vetrarlagi heldur en sumarlagi og hafa mælingar á loftraka í íbúðarhúsum á höfuðborgarsvæðinu sýnt það. Algengur loftraki er iðulega við mörk svæða 1 og 2 og upp í mitt svæði 2 á línuritinu; oft 25-40 % HR að vetrarlagi og 45-55 %HR að sumarlagi.

 Nú er algengt að loftrakamælar séu stafrænir (sýna mæligildin með tölustöfum) en á eldri mælum, sem sýna loftraka með vísi á skala, er oft merkt grænt svæði sem kallast „Normal“. Þessi viðmiðun tekur ekki mið af breytilegum aðstæðum milli sumars og vetrar og á alls ekki við þegar kalt er utandyra.

 

Heimild og myndir:

Fleira áhugavert: