Grand Hotel – Árið 2020: 450 herbergi, 14 milljarðar
Júní 2017
Stærra Grand Hótel verður opnað 2020, verður að líkindum stærsta hótel landsins
Framkvæmdir við stækkun Grand Hótels Reykjavíkur hefjast í haust. Við hótelið verða jafnframt byggðar íbúðir. Hótelið er í Sigtúni í Reykjavík og hefur þessi reitur verið nefndur Blómavalsreitur.
Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir að byggðir verði um 40 þúsund fermetrar af húsnæði á reitnum, að meðtöldum bílageymslum. Hann segir aðspurður að framkvæmdin kosti ekki undir 14 milljörðum króna.
Grand Hótel Reykjavík er nú annað stærsta hótel landsins með alls 311 herbergi. Með stækkuninni bætast við um 130 herbergi í nýjum 9 hæða turni. Alls verða því 440-450 herbergi á hótelinu.
Nýi turninn mun rísa austan við núverandi hótelturn Íslandshótela, sem er 14 hæðir. Verklok við hótelið eru áætluð í ársbyrjun 2020, eða eftir 30 mánuði.
Margir vilja kaupa íbúðir
Þá verða byggðar 108 íbúðir í sex nýjum fjölbýlishúsum á reitnum.
Undir svæðinu verður byggður bílakjallari með 420 stæðum og á eftir að útfæra útfærsluna hvað varðar eignarhald og nýtingu. Með stæðum ofanjarðar verða 600 stæði.
Ólafur segir mikinn áhuga á íbúðunum. „Það er stöðugt verið að hringja í mann og óska eftir því að fá að skoða og panta íbúðir. Menn vilja finna sér álitlega íbúð, sem hentar þeim,“ segir Ólafur.