Geislahitun – Endurnýjun lífdaga?
Mars 2005
Stundum spretta upp tæknilegar lausnir sem fara um eins og eldur í sinu, eiga sitt glæsta tímabil en falla síðan af stalli eins hratt og þær risu. Það hitakerfi sem átti sér sitt stutta blómaskeið var geislahitunarkerfið.
Áður en lengra er haldið er rétt að lýsa örstutt hvað geislahitunarkerfi er. Í stað ofna voru lagðir spíralar úr ½“ stálrörum steyptir inn í loftin, síðan var meðalheitu vatni dælt um kerfin og loftin hitnuðu og þar með stofan, herbergið eða hvaða rými sem var.
Þetta þótti mörgum kyndugt og ekki furða, flestir vita að allur hiti leitar upp á við, en því þá að setja hitagjafann efst í stofuna?
Þetta er ekki svo galin hugmynd og annar og mikilvirkari hönnuður, hver sem hann nú er, hefur skapað stærsta geislahitakerfi sem vesælir menn hafa kynnst, sólargeislakerfið í alheiminum.
Þar drottnar sólin og hitar upp veröldina á nákvæmlega sama hátt og geislahitunarkerfi í húsi. Munurinn á milli kerfa er æði mikill, en eigi að síður er þarna sama eðlisfræðin.
Geislar fara alltaf beina línu í hvaða átt sem er, lárétt eða lóðrétt, upp eða niður, sama hvort það eru geislar sólar, brenna á gamlárskvöld eða geislahitun í húsi. Þess vegna getur geislahitunarkerfi hitað upp hús þó að það sé innsteypt í loftið.
Eflaust skekkir það nokkuð samlíkinguna á þessu þrennu að bæði brennan og sólin senda ekki aðeins frá sér varmageisla heldur jafnframt ljósgeisla, en það gerir geislahitunarkerfið ekki.
Það er ekki fjarri lagi að það sé rétt hálf öld síðan geislahitun hélt innreið sína á Íslandi fyrir tilverknað Jóhanns Pálssonar pípulagningameistara, sem er einn fárra manna í þeirri stétt sem hefur farið út á þá torfæru braut að gerast forgöngumaður og frumkvöðull.
En á fáum árum varð þetta vinsælasta hitakerfið hérlendis og þá voru að sjálfsögðu fleiri kallaðir en frumkvöðullinn til að leggja þessi kerfi og þó nokkrir ungir pípulagningamenn á þessum árum gerðu vart annað en að liggja lengstum uppi á plötum og logsjóða geislakerfi. Það er þversögn að oft hefur það verið kaldsamasta vinnan að leggja hitakerfi.
En hvað gerðist, spyrja menn undrandi, þegar við verðum ekki í fyrsta sæti í Söngvakeppninni eða verðum ekki heimsmeistarar í handbolta.
Eins má spyrja hvað hafi gerst í þessari tækni, af hverju hvarf þetta vinsæla hitakerfi gjörsamlega, átti sitt korter eða um 15 ára líftíma, síðan ekki söguna meir.
Ástæðurnar eru þó nokkrar, en líklega tækist að pikka leiðinlegasta pistilinn fram til þessa með því að fara að telja það upp, lesendum verður hlíft að þessu sinni.
En þó hætt væri að leggja geislahitun er hún enn við hestaheilsu í fjölmörgum húsum og veitir íbúum il og þægindi.
Auðvitað er það svo með þetta hitakerfi eins og önnur að til þess að þau skili sínu hlutverki þurfa þau umönnun og eftirlit og endurnýjun á stýritækjum, dælum og ýmsu fleiru.
Skortur á viðhaldi varð mörgum þessara kerfa að falli, en Íslendingurinn viðurkennir að sjálfsögðu aldrei eigin slóðaskap.
En andlát geislahitunar hérlendis og víðar var löngu staðfest, gott hvort útförin hafði ekki farið fram og ekki loku fyrir það skotið að í þessum pistlum hafi birst nokkur minningarorð í anda þeirra íslensku bókmennta, hlýleg, jákvæð og að sjálfsögðu mærðarleg.
En nú berast tíðindi að utan sem koma jafnvel gömlum lagnakalli á óvart.
Geislahitun er gengin aftur og það er aðallega í okkar gamla herraríki, Danmörku, sem hún hefur brotist upp úr ótímabærri gröf sinni.
Ekki er það svo að hún hefji innreið sína að nýju í íbúðarhúsnæði, þar er gólfhitinn á sinni sigurbraut og vonandi verða ekki teljandi leggjarbrjótar á þeirri leið, en rétt er að stíga varlega til jarðar. Hin afturgegna geislahitun er heldur ekki lögð innsteypt í loftplötur, líklega er það liðin tíð með öllu.
Sú geislahitun sem nú er að rísa úr öskustó er aðallega lögð í stórar byggingar og þar má nefna íþróttahallir, en einnig atvinnuhúsnæði, einkanlega með mikilli lofthæð. Hitaflöturinn er þá plötur eða einingar úr málmi sem rörin eru felld inn í, síðan eru þessir hitafletir hengdir í loftin og tengdir við kerfið, geislahitunarkerfi er orðið að veruleika.
Slík kerfi voru ekki óþekkt hérlendis á blómatíma geislakerfanna og langt innan úr minninu er dregið fram að slíkt kerfi var lagt í hús Kennaraháskólans við Stakkahlíð árið 1961. Fróðlegt væri að kanna hvort það sé enn við lýði.
En hverjir eru kostirnir við geislahitun í íþróttahöllum og öðrum stærri byggingum með mikla lofthæð? Þar má nefna að kerfið er algjörlega hljóðlaust andstætt lofthitunarkerfum eða einstökum hitablásurum, það verður minni lofthreyfing, sem talin er kostur fyrir margar íþróttagreinar, svo sem badminton. Þá má nefna rekstrarkostnað, en þau hitakerfi sem áður voru nefnd safna miklum hita efst í hátimbruðum húsum, geislahitunin gefur jafnari hita frá gólfi til lofts sem getur haft sparnað í för með sér.
Af endurkomu geislahitunarkerfa má draga talsverðan lærdóm. Við val á hitakerfum og svo mörgu öðru í byggingum gildir ótrúleg hjarðmennska. Þetta á við alla sem að byggingum koma, forgöngumenn eru fáir, en sporgöngumennirnir því fleiri.
Sem dæmi eru snúrrandi hitablásarar í öllum verslunum, sama hvort komið er í Bónus, Krónuna, Kaskó eða aðrar lágvöruverðsverslanir til að hamstra ókeypis mjólk, alltaf hitablásari sargandi í loftum þó gólfhiti eða jafnvel geislahitun væri heppilegri hitakerfi, þreytum okkur ekki með fleiri dæmum.
En nú væri full ástæða til að hönnuðir og byggjendur líti aðeins upp úr spori vanans; það skyldi þó ekki vera að geislahitunarkerfi sé kostur sem vert er að athuga?