Djibútí – Tveggja milljarða borsamningur
Maí 2017
Jarðboranir hafa undirritað borsamning við ríkisraforkufyrirtæki Djibútí, í Austur-Afríku, um borun tveggja hola. Heildarvirði samningsins er um 20 milljónir dollara, eða um tveir milljarðar króna. Forstjóri Jarðborana segir samninginn marka nýtt upphaf að verkefnum fyrirtækisins í Austur-Afríku. Samningurinn er um boranir við Fiale-öskju við Assal-vatn í Djibútí.
Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir samninginn marka nýtt upphaf fyrir fyrirtækið á þessu svæði. „Ég lít á þetta sem fyrstu skref okkar inn í Afríku,“ segir Sigurður. Hann segir verkefnið hafa vakið athygli annarra fyrirtækja á Jarðborunum og fleiri séu áhugasamir um samstarf. Nú sé fyrirtækið að skoða verkefni í Eþíópíu.
Verkefnið er fjármagnað af ríkisstjórn Djibútí og mun njóta styrkja og lána frá Alþjóðabankanum, Afríska þróunarbankanum og fleirum. Virði samningsins er áætlað um 20 milljónir dollara en er þó breytingum háð, að sögn Sigurðar, þar sem raforkufyrirtækið geti svo valið að bora ýmist meira eða minna.
Ríkisraforkufyrirtæki Djibútí, Electricité de Djibouti (EdD), sem sinnir flutningi og dreifingu raforku í landinu, undirritaði samninginn við Jarðboranir. Fyrirhugað borverk Jarðborana er við Fiale-öskjuna við Assal-vatn, milli Ghoubbet-flóa og Assal-vatnsins, um 100 kílómetra norðvestur af Djibútí-borg.
Borunarsamningurinn, sem var undirritaður 21. maí síðastliðinn, felur í sér borun tveggja 2.500 metra djúpra jarðhitahola á árinu 2018 með möguleikum á tveimur holum til viðbótar. Undirbúningur verksins er hafinn en raunverulegar framkvæmdir hefjast upp úr næstu áramótum og standa yfir í fjóra til fimm mánuði. Áætlað er að um 40 starfsmenn Jarðborana komi að verkinu. Stefnt er að því að nota borinn Tý, en hann er nú í notkun í öðru verkefni fyrirtækisins í Níkaragva.
Íslenska borfyrirtækið Jarðboranir er leiðandi á heimsvísu á sviði háhitaborana og hefur margra ára reynslu í bæði borun í há- og lághita. Rekstur félagsins hefur verið á Asoreyjum, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Ungverjalandi, Þýskalandi, Níkaragva, Filippseyjum, Karíbahafi (Dominica og Montserrat), Sviss og Nýja-Sjálandi. Nú sem stendur er félagið í verkefnum á Íslandi, Karíbahafi og Níkaragva.