Er rétt að breyta umgjörð raforkumála?
Maí 2017
Tímabært að breyta umgjörð raforkumála
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að raforka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innanlands því fjölbreyttur og öflugur iðnaður er forsenda góðra lífskjara. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeim ávinningi sem hlýst af raforkunýtingu hjá fyrirtækjum á Íslandi og því mikilvægt að staðinn sé vörður um samkeppnishæfni orkunotenda í alþjóðlegu samhengi. Raforkuframleiðsla og nýting hennar gegnir lykilhlutverki í efnahagsstarfseminni og er veigamikil uppspretta verðmætasköpunar en tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggist á nýtingu og framleiðslu raforku. Skipulag, uppbygging og þróun raforkumarkaðar hér á landi skiptir því miklu máli fyrir iðnfyrirtæki og efnahagslífið í heild sinni.
Samkeppni er eitt besta tækið til að draga fram það besta og hagkvæmasta í atvinnustarfsemi. Þannig er hag kaupenda og seljenda best borgið og ábati samfélagsins hámarkaður. Þess vegna er skynsamlegt að leita allra leiða við að koma á og styðja við samkeppni þar sem henni verður við komið. Það á við um raforkumarkaðinn eins og aðra markaði.
Í nýrri raforkustefnu Samtaka iðnaðarins kemur fram að nauðsynlegt sé að rjúfa tengsl milli Landsvirkjunar og Landsnets hið fyrsta til að aðskilnaður verði milli framleiðslu og flutningsfyrirtækja raforkunnar. Landsvirkjun hefur yfirburðastöðu á íslenskum raforkumarkaði á sama tíma og Landsnet hefur einokunarrétt á flutningi á raforku. Skapa þarf skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði. Hlutdeild Landsvirkjunar í raforkuframleiðslu þarf að minnka enda er vandséð að ávinningur frjálsrar samkeppni náist fram að fullu þegar eitt fyrirtæki er með yfir 70% markaðshlutdeild. Það er því bæði óeðlilegt og óæskilegt að Landsvirkjun eigi stóran eignarhlut í Landsneti sem er jafnframt að miklu leyti fjármagnað af Landsvirkjun. Þessi eignatengsl og fjármögnunartengsl eru óheppileg.
Að undanförnu hefur fjölbreytni raforkukaupenda aukist þegar nýjar atvinnugreinar spretta upp líkt og gagnaversiðnaðurinn og fjölmörg öflug iðnfyrirtæki sem eru að vaxa hratt. Það má búast við að millistórum raforkunotendum fjölgi en á sama tíma tekur verðlagning og þjónusta til þessara aðila ekki mið af því. Raforkusalar og dreifiveitur ættu að sjá sér hag í að mæta ólíkum þörfum lítilla, meðalstórra og stórra raforkukaupenda með mismunandi kjörum eins og þekkist víða erlendis. Til þess að svo megi verða þarf að breyta umgjörð raforkumála hér á landi.
Með raforkulögum frá árinu 2003 voru veigamiklar breytingar gerðar á íslenska raforkumarkaðnum þar sem markmiðin voru að skapa forsendur fyrir virka samkeppni í raforkusölu, auka skilvirkni í flutningum og dreifingu og tryggja gæði. Það er mat Samtaka iðnaðarins að þessum markmiðum hafi ekki verið náð. Er ekki tímabært að stigin verði ákveðnari skref í þá átt að ná fram þessum markmiðum nú þegar 14 ár eru liðin frá því raforkulögunum var breytt?