Köllunarklettsreitur – 70 milljarða kr. hverfi
Maí 2017
Verktakafyrirtækið Þingvangur hyggst byggja 200 þúsund fermetra hverfi í Laugarnesi í Reykjavík. Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri Þingvangs, vonast til að uppbyggingin geti hafist á næsta ári.
Hann segir að í hverfinu verði byggingar sem muni henta vel sem höfuðstöðvar fyrirtækja. Þá verði upplagt fyrir stofnanir og ráðuneyti að hafa aðsetur í nýja hverfinu.
Pálmar segir hugmyndir um að byggja 200 hótelíbúðir í hverfinu. Þær geti verið hagkvæm fjárfesting fyrir almenning, sem geti þannig keypt íbúðir og leigt ferðamönnum. Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Pálmar til skoðunar að byggja litla útgáfu af Umferðarmiðstöðinni BSÍ í nýja hverfinu.
Þá sé nú miðað við að rúmlega 45 þúsund fermetrar fari undir hótelbyggingar. Til samanburðar er Fosshótelsturninn á Höfðatorgi, stærsta hótel landsins, í 17 þúsund fermetra byggingu.
Nýja hverfið er á svonefndum Köllunarklettsreit við Laugarnesið.
Núverandi hugmyndir gera ráð fyrir fjölda bygginga á svæðinu.