Hellisheiðarvirkjun – 200-300°C gufa lak um þéttingu loka
Apríl 2017
Glíma við 200-300°C heita gufu
Um tíu starfsmenn Brunavarna Árnessýslu eru nú staddir í húsi við Hellisheiðarvirkjun þar sem þétting á vatnsloka gaf sig með þeim afleiðingum að 200-300 gráðu heit vatnsgufa dælist út. Upp komst um lekann rétt fyrir hádegi og enn er unnið að því að ná tökum á ástandinu með því að loka fyrir lokann.
Brunavarnir Árnessýslu gátu ekki gefið mbl.is upplýsingar um hvort einhverjir hefðu verið inni í húsinu er lokinn brast. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segist ekki vita til þess að fólk hafi verið inni í húsinu er atvikið átti sér stað. Samkvæmt upplýsingum Eiríks voru starfsmenn ekki í hættu og enginn slasaðist.
Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum er lokinn sem um ræðir inni í svokölluðu skiljuvatnslokahúsi. Þétting í mjög stórum loka gaf sig. Nú er unnið að því að koma rafmagnsbúnaði að lokanum til að skrúfa fyrir.
Hleypa gufu út um þakið
Þetta er í annað sinn sem Brunavarnir Árnessýslu sinna útkalli vegna sama verkefnis í húsinu. Við þessar aðstæður myndast gríðarlegur hiti og rakaþéttni. Það eru því erfiðar aðstæður sem reykkafarar slökkviliðsins þurfa að vinna við á staðnum. Síðast þegar þetta gerðist þurfti að skrúfa fyrir lokann með höndunum. Slíkt er tímafrekt.
Loftlúgur eru á þaki hússins og hafa þær verið opnaðar til að hleypa gufunni út.
Upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur segir að við atvikið hafi lágþrýstivél við virkjunina dottið út og sömuleiðis heitavatnsframleiðsla. Reiknað er með að starfsemin verði komin í samt lag fyrir kvöldið og að atvikið hafi ekki varanleg áhrif á rekstur virkjunarinnar.
Komust út af sjálfsdáðum
Tveir menn voru við störf í húsnæði við Hellisheiðarvirkjun í gær er um 2-300°C heita gufu tók að leka í umtalsverðu magni. Mennirnir komust út af sjálfsdáðum án nokkurra meiðsla.
Lekinn varð í skiljuvatnslokahúsi við virkjunina um klukkan hálf tólf í gær. Samkvæmt upplýsingum Brunavarna Árnessýslu hafði pakkning í krana á gufulögn gefið sig með þeim afleiðingum að sjóðandi heit gufa sprautaðist inn í rýmið.
Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu fóru upp á þak byggingarinnar með körfubíl til þess að opna fyrir lúgur svo hægt væri að hleypa mest allri gufunni út. Í framhaldi voru síðan reykkafarar sendir inn í rýmið til þess að loka fyrir kranann.
Kraninn sem um ræðir er gríðar stór og tekur það bæði mikið afl og tíma að loka fyrir hann handvirkt. Það varð því slökkviliðsmönnunum mikið gleðiefni að komast að því að komin væri rafrænn búnaður í virkjunina sem reykkafarar gátu tekið með sér inn í rýmið og notað til þess að loka fyrir umræddan krana.
Í frétt á vef Brunavarna Árnessýslu um málið segir að störf slökkviliðsmanna á starfssvæði virkjunarinnar hafi að vanda verið unnin í fullu samstarfi við starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar og lauk störfum á vettvangi um klukkan hálf þrjú í gær.