Hvað er þetta Vatn?

Heimild:  

 

Mars 2010

Gunnar Hersveinn

Sköpunarsaga framandi þjóðar hljómar eitthvað á þessa leið. Guð skapaði ljós og myrkur, himinn og jörð og höfin, gróðurinn, dýrin og mennina og andi guðs sveif yfir vötnunum. Þá kom að því að Guð bauð fólkinu upp á tvo kosti til lífsviðurværis: nautgripi eða þetta hvað. Fólkið þekkti frjósamt landið og nautgripina, það vissi hvað það átti – en spurði svo: Hvað er þetta hvað?“ og Guð svaraði: Þið komist að því ef þið veljið það. Fólkið hélt nú þing um hvort það ætti að velja nautgripina sem þau vissu að myndu nægja þeim til lífsviðurværis eða þetta hvað. Eftir mikil þinghöld var þó ákveðið að velja nautgripina í stað áhættunnar.

Síðar kynntist þessi þjóð annarri þjóð sem ávallt var að angra hana, sem ágirnist nautgripina og vildi fá eignarhald á þeim. Þá sögðu öldungarnir: Þessi þjóð, sem vill ná tangarhaldi á okkur, hefur valið þetta hvað, hún er aldrei fullnægð og reynir sífellt að véla af okkur nautgripina og umbreyta þeim í eitthvað annað.

Á Íslandi takast þessi ólíku viðhorf iðulega á: annars vegar sú einbeitta afstaða og vissa um að okkur beri skylda til að ganga gætilega um verðmætin. Umgangast þau af virðingu og með nægjusemi að leiðarljósi. Hins vegar afstaðan um að það sé áhættunnar virði að umbreyta þeim í eitthvað annað – í þetta óræða hvað.

Grunnvatnið er dæmi um mikla auðlind – jafnvel ómetanlega auðlind. Samt þarf að standa dyggan vörð um hana ef hún á ekki að glatast. Ógnin gagnvart neysluvatninu er ekki aðeins af hendi náttúrunnar heldur iðulega einnig af mannavöldum.

Þjóðin getur valið að gæta þeirra verðmæta sem standa henni næst og eru í hennar umsjá. Þessi þjóð býr yfir verðmætum sem mega ekki glatast vegna ásóknar í eitthvað annað: þetta hvað. Heimspekingur sagði: „Við komum ekki auga á það besta í lífinu, heilsuna, fyrr en við erum orðin heilsulaus, æskuna fyrr en á gamals aldri og frelsið fyrr en í ánauð.“ Eins er með vatnið.

Það virðist vera ógæfa manna um víða veröld að sjá ekki perluna sem stendur þeim til boða vegna þess að perlufestin hangir ofarlega huga þeirra. Um þessa reglu, þennan ókost, hafa óteljandi skáldsögur verið skrifaðar: við föllum of oft í sömu gryfjuna. Keppumst við að vera fremst þjóða í einhverju, best í heimi í einhverju öðru en liggur beinast við. Þessi viðleitni er að velja þetta hvað sem guðinn í sköpunarsögunni bauð uppá.

Þetta Ísland eMyndaniðurstaða fyrir vatnslagnirr sköpun út frá höfuðskepnunum sem eru fyrir hendi. Þetta hvað er eitthvað annað. Hvað er þetta hvað sem við fáum í staðinn fyrir það sem við glötum? Þar liggur óvissan.
Færa má sterk rök og ástæður fyrir því að íbúar þessarar týndu eyju í Atlantshafi ættu að veita íslenskri náttúru, sögu og tungu fulla virðingu og ganga um þessi gæði með lotningu í hjarta. Sú hegðun er ekki meðfædd heldur er hún dyggð sem þarf að læra. Verðmætum er auðvelt að glata. Dyggðin náttúruvernd verður aðeins lærð, hana þarf að velja, æfa og rækta með sér. Færa mætti rök fyrir því að þetta sé einnig skylda þjóðarinnar.
[Aðeins það Ísland sem íbúarnir velja að skapa og þau lífsgæði sem þeir sækjast eftir hverju sinni er til. Heillavænlegast er að byggja velferðina á virðingu gagnvart náttúru landsins og menningu þjóðar og skapa úr því þekkingu og verðmæti. ]

Við eigum dýrmætt drykkjarvatnið. Umgengnin við það þarf að byggjast á virðingu og nægjusemi. Drykkjarvatnið í hverju sveitarfélagi getur horfið á augabragði. Þeir sem velja þetta hvað finnst hins vegar þess virði að gera tilraunir. Klípa aðeins af vatnsverndarsvæði, leyfa virkjun í nágrenni, reisa raflínur, nýta ár, leyfa byggingar og þungaflutninga … og svo framvegis þangað til eitthvað gerist. Fari olíubíll á hliðina og olían lekur í jörðina, gæti grunnvatnið tapast. Nefna má að Hellisheiðin og Hengilsvæðið eru nánast helgur staður, það dregur að sér mikla úrkomu sem sígur í jörð
og grunnvatnið verður til sem rennur til allra íbúa á þéttbýlasta svæði landsins.

Sköpunarsagan þar sem guð gerði mönnum að velja milli nautgripina til lífsviðurværis eða hins óþekkta sem hann kallaði: Hvað – er í raun dæmisaga um nægjusemi og græðgi þjóðar. Nautgripirnir eru nægjusemi og þetta hvað er ósvalandi græðgin. (Þessi hugtök lýsa tvenns konar viðhorfum til nýtingar).

Nægjusemin er höfuðgildi sem Íslendingar þurfa að temja sér í samskiptum sínum við náttúru og umhverfi. Sýna þarf hófsemi gagnvart auðlindum þjóðarinnar. Sá sem vill leggja sitt af mörkum í umhverfisvernd byrjar á því að temja sér nægjusemi.

Nægjusemin snýst meðal annars um að njóta þess sem þegar hefur áunnist. Græðgin felst aftur á móti í því að kunna sér ekki hóf og vilja sífellt auka magn og afköst og hagræða á kostnað umhverfis og félagslegra þátta. Hún ryðst af stað eins og jarðýta.

Nægjusemi felst í aga og að finna meðalveginn milli náttúru, efnahags og félagslegs réttlætis. Hún skorar á einstaklinga og þjóðir að aga áform sín og hugmyndir.

Nægjusemin krefst hugrekkis. Hún fórnar ekki fegurð, vatnsgæðum eða öðrum náttúruverðmætum fyrir stundargróða. Hún er varnargarður gegn æðibunugangi. Nægjusemi er dyggð sem æfa þarf af kappi til að auka styrk mannsins og þol gagnvart ytri þrýstingi. Hún er andstæðan við hugmyndina um að þurfa að gera allt núna strax áður en það verður of seint, áður en við töpum af einhverju sem enginn veit hvað er.

Drögum lærdóma af þjóðinni í sköpunarsögunni sem valdi nautgripina, nægjusemina í stað áhættunnar í leit að einhverju öðru. Nægur er auðurinn sem er í hendi.

Lokaorðin eru sótt til upphafs vestrænnar heimspeki: Eðli lífsins er vatn, sagði Þales, forngríski heimspekingurinn Það er rétt að því leyti til að vatn er nauðsynlegt –öllu lífi.

Fleira áhugavert: