Mun sæstrengur gera íslenska raforku óhreina?

Heimild:  baendabladid

 

Júlí 2015

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Íslensk orkufyrirtæki hafa stundað þann leik síðan 2011 að selja erlendum orkufyrirtækjum íslensk hreinleika- eða upprunavottorð á raforku og hjálpað þeim þannig við að blekkja raforkukaupendur sína um raunverulegan bakgrunn eigin framleiðslu.

Umfjöllun í síðasta Bændablaði um málið vakti gríðarlega athygli enda málið í hæsta máta fáránlegt. Allt er þetta þó gert í skjóli ESB-tilskipunar og laga sem Alþingi samþykkti einróma vorið 2008.

Ísland og Íslendingar geta ekki lengur stært sig af þessari hreinu ímynd, þar sem orkufyrirtækin selja á hverju ári erlendum orkufyrirtækjum hreinleikavottorð í orkuframleiðslu í skiptum fyrir ávísun á orku sem ekki er framleidd á vistvænan hátt. Þetta má sjá á orkureikningum landsmanna þar sem nú er tekið fram að meirihluti af orkunni sé framleiddur með kjarnorku, olíu, kolum og gasi.

 

Setur sæstrengsmálið í uppnám

Vegna þeirrar stöðu sem landsmenn hafa nú verið upplýstir um er jafnframt ljóst að hugmyndir um sölu raforku frá Íslandi um sæstreng hljóta líka að vera komnar í uppnám. Dugar þar að vitna í orð iðnaðarráðherra hér að neðan um það ef af lagningu sæstrengs yrði; „… þá getum við ekki lengur sagt að við séum bara með hreina orku“.

 

Allt er falt fyrir peninga − líka syndaaflausnir og blekkingar

Þrátt fyrir að hér á landi séu hvorki kola- né kjarnorkuver til raforkuframleiðslu, þá geta Íslendingar sjálfir ekki fengið skráð hjá sér kaup á hreinni orku nema greiða orkufyrirtækjunum sérstaklega fyrir það. Það sem meira er, að framboðið á þessum hreinleikavottorðum fyrir Íslendinga sjálfa fer þverrandi vegna sölu til útlendinga.

Á reikningi Orku náttúrunnar kemur fram að viðskiptalegur uppruni raforku ON eftir orkujöfnun árið 2013 sé endurnýjanleg orka 39% og jarðefnaeldsneyti 37% kjarnorka 24%. Vegna aukinnar raforkuframleiðslu með vatnsafli og heldur minni sölu hreinleikavottorða minnkaði kjarnorkuhlutfallið, hjá öllum orkufyrirtækjunum samkvæmt útreikningum Orkustofnunar, í 23% árið 2014 og jarðefnaeldsneytishlutinn í 32%.

Sveinn A. Sæland, fyrr­verandi formaður Sambands garðyrkjubænda, lýsti áhyggjum garðyrkjubænda vegna málsins og greindi frá tilboði sem hann hafði fengið frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur , um að garðyrkjubændur gætu keypt sig frá sóðaskapnum fyrir 5,1 eyri á kílóvattstund. Málið snýst þó um miklu meira en hag og ímynd garðyrkjunnar, því öll hreinleikaímynd Íslands sem hamast hefur verið við að selja útlendingum á undanförnum áraum og áratugum er undir.

 

orka ohreinVerður rándýrri markaðssetningu fórnað á altari blekkingarinnar?

Hér hafa verið reist stór gagnaver, bæði á Keflavíkurflugvelli og í Hafnarfirði sem ganga nær eingöngu út á að selja notendum endurnýjanlega og hreina orku til að geyma tölvugögn sín. Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið af opinberum aðilum og einkafyrirtækjum í að auglýsa hreinleika landsins og að hér sé framleiðsla og notkun á hreinum orkulindum höfð í hávegum. Öll ferðaþjónustan byggir á að selja þessa sömu hreinu ímynd. Allt þetta hefur nú verið sett í uppnám með innleiðingu á reglugerð ESB og einróma samþykkt Alþingis sem heimilar sölu íslenskra orkufyrirtækja á hreinum blekkingum.

Þar er ekki verið að selja neina hreina orku, einungis syndakvittun fyrir erlenda aðila um að þeir geti skreytt með íslenskum pappírum um hreina orku til að slá ryki í augun á sínum viðskiptavinum. Furðulegt má telja að hagsmunaaðilar, þar með talin samtök neytenda, hafi ekki frekar en þingmenn og aðrir gert athugasemd við lagafrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi og heimilar þennan gjörning. Samt er hér verið að beita hreinum blekkingum gagnvart neytendum eins og kom fram í umræðum um málið í síðustu viku.

 

Orkufyrirtækin verða beðin að hætta sölu bréfanna – ef …

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ræddi málið í útvarpsþættinum „Í bítið“ á Bylgjunni 14. júní. Þar viðurkenndi hún fáránleika sölu þessara upprunavottorða og sagði m.a.: „Ég get alveg viðurkennt það að manni hefur þótt ankannalegt að sjá þetta á rafmagnsreikningunum sínum, en þetta er ákveðin bókhaldsleg framsetning. Þetta breytir engu um það og er ekki  raunveruleg lýsing á okkar orkubúskap sem er eins og allir vita þannig, að hann byggir að 99,99% á endurnýjanlegum orkubúskap. […] Nú hafa grænmetisbændur vakið á þessu athygli og ef þetta er farið að skaða þeirra atvinnugrein eða hagsmuni Íslands að einhverju leyti, þá hef ég látið hefja þá skoðun í ráðuneytinu að skoða hvaða hagsmunum erum við að fórna, erum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni? Fyrsta skoðun bendir til þess að tekjurnar af þessu hafi ekki verið gríðarlega miklar fyrir orkufyrirtækin en við erum ekki komin að endanlegri niðurstöðu um það. Við munum þó ekki geta komist út úr tilskipuninni eða kerfinu sjálfu, en það sem við getum gert, og það er sú leið sem við hugsanlega myndum fara, ef við kæmust að þessari niðurstöðu, væri að fara þess á leit við orkufyrirtækin að þau hætti þessu til þess að skaða ekki okkar hagsmuni.“


Syndaaflausn

Ráðherrann tók undir þá skoðun sem sett var fram í forsíðufyrirsögn í Bændablaðinu, að þetta væri ákveðin syndaaflausn.

„Það væri þá lausnin ef í ljós kemur að þetta er að skaða okkur […] að fá þau til þess að hætta þessu.“

Ragnheiður Elín sagði einnig að umræðan um kolefniskvóta á alþjóðavísu snerist í raun um þetta sama. „Þetta snýst um það að menn geta keypt sig frá einhverjum vanda. Þannig er búið að setja upp viðskiptakerfi í þessu og upprunaábyrgðir eru annar angi af því. Þetta er ekki alveg sambærilegt, en þetta eru fyrst og fremst tölur á blaði og hvernig menn geta reiknað sig út frá ákveðnum markmiðum og að ákveðnum markmiðum. Þannig að mér finnst ekkert skrítið að fólki finnist þetta kúnstugt.“

Hún sagði að Norðmenn væru í svipaðri stöðu þótt umræða hafi ekki komist á þetta stig þar en væri að koma upp á yfirborðið núna.

„Ég er algjörlega tilbúin að skoða það að fara þess á leit við orkufyrirtækin, ef í ljós kemur að þetta er að skaða okkur, að þau hætti að selja þessar ábyrgðir. Ég get ekki fyrirskipað þeim það vegna þess að þetta er í lögunum, en þetta er eitthvað sem við munum taka upp við þau að lokinni þessari skoðun.“

Þarna er greinilega um mjög stórt ímyndarmál að ræða fyrir Ísland og Íslendinga til langrar framtíðar sem taka þarf afstöðu til.

 

Ríkið dragi sig út úr upprunavottun orku

Ragheiður Elín tók í svipaðan streng í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Þar sagði hún m.a.: „Ég hef skilning á sjónarmiðum þeirra, til að mynda garðyrkjubænda, sem gert hafa athugasemdir við sölu á upprunaábyrgðum og hef ég óskað eftir því í ráðuneytinu að kannað verði hvaða leiðir eru færar í þessum efnum. Ef í ljós kemur að tekjur eru litlar og að hagsmunum gæti verið fórnað þá væri möguleikinn sá að beita sér fyrir því að orkufyrirtæki ríkisins dragi sig út úr þessu kerfi og eftir atvikum ræða við aðra orkusala um að hverfa frá þessari stefnu einnig.“

 

Gefur sér sumarið til að meta stöðuna

Bændablaðið sendi Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrirspurn í nokkrum liðum er þetta varðar. Þar var hún fyrst spurð:

− Hvenær má búast við niður­stöðu vegna skoðunar ráðu­neytisins á málinu?
Svar ráðherra er svohljóðandi: „Ráðuneytið hefur verið að fara yfir hvaða kostir séu í stöðunni. Við höfum ekki marga kosti vegna skuldbindinga okkar gagnvart EES. En eitt af því sem við höfum rætt er að ríkið sem eigandi beini þeim tilmælum til orkufyrirtækja í ríkiseigu að þau einfaldlega hætti sölu slíkra upprunaábyrgða og jafnframt að rætt verði við hin orkufyrirtækin um að gera það sama. Það væri þó alltaf háð því mati að sala á upprunaábyrgðum sé í heild að skaða íslenska hagsmuni umfram þær tekjur sem orkufyrirtækin hafa af slíkri sölu. Við munum gefa okkur sumarið til að fara betur yfir málið enda liggja hagsmunir víða og mikilvægt að gefa sér þann tíma sem þarf.“

 

Látið viðgangast

Ragnheiður Elín sagði einnig í viðtalinu á Bylgjunni að þetta væri ekki bara látið viðgangast hér og úti í Evrópu þótt menn vissu að þarna væri um blekkingu að ræða, heldur væri þetta markmiðið með öllum þessum tilfæringum. Þetta væri ekki eitthvað sem gerðist með handahófskenndum hætti því þetta væri eins og orkupólitíkin innan Evrópusambandsins væri rekin.


sæstrengurSæstrengur gerir Ísland óhreint

Þá kom ráðherrann inn á athyglisverðan þátt sem einnig var bent á í greininni í Bændablaðinu, en það varðar hugmyndir um lagningu sæstrengs fyrir raforkuflutning frá Íslandi til Evrópu. Um það sagði ráðherrann: „Síðan eru önnur tæki þar sem er verið að aðstoða þá sem eiga í erfiðleikum með að ná þessum markmiðum við að kaupa frekar endurnýjanlega orku heldur en aðra með því að gera hana ákjósanlegri. Sæstrengsumræðan, til dæmis á Íslandi eða í Evrópu, snýr að miklu leyti að þessu. Þess vegna eru Bretar og aðrir áfjáðir um að kaupa orku frá Íslandi í gegnum sæstreng af því að þá er þetta ekki bara á pappírnum. Þá er þetta sannarlega hrein íslensk orka sem er að koma í gegnum strenginn. En þá er það líka það sem við verðum að varast, þá getum við ekki lengur sagt að við séum bara með hreina orku. Þá værum við að fá aðra orku hina leiðina með strengnum sem getur verið upprunnin með öðrum hætti en endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Einn hluti af sæstrengsmálinu

Bændablaðið spurði iðnaðar- og viðskiptaráðherrann sérstaklega út í þetta mál. Í erindi blaðsins var spurt:

− Mun ráðherra beita sér fyrir því að umræðan um hreinleikaímynd Íslands verði tekin upp og höfð til hliðsjónar í viðræðum um sæstreng?
Ráðherra svaraði þessari spurn­ingu svona: „Það er stýrihópur að störfum sem er að skoða hagkvæmni sæstrengs og eitt af því sem við þurfum að meta áður en endanleg afstaða er tekin til sæstrengs er einmitt þetta atriði.“

 

Segir mikilvægt að fá öll spilin á borðið

Ráðherrann var einnig spurður um persónulegt mat sitt á ímyndarlegu mikilvægi Íslands:
− Hvort metur ráðherrann mikilvægara í þessu samhengi, að viðhalda hreinleikaímynd Íslands gagnvart umheiminum, eða óljós hagnaðarsjónarmið vegna hugsanlegrar sölu raforku um sæstreng?

Þessu svaraði ráðherrann ekki með afgerandi hætti en sagði: „Ég tel mikilvægt að stýrihópurinn ljúki störfum og að við fáum öll spilin á borðið áður en ég svara spurningu sem þessari. Þá munum við sjá betur hvaða hag við hefðum af sæstreng og ættum jafnframt að hafa á borðinu hugsanlega galla við slíkt verkefni.“

 

Umhverfisráðherra vísar á ummæli iðnaðarráðherra

Bændablaðið sendi umhverfis­ráðherra fyrirspurn um afstöðu ráðherrans til sölu orkufyrirtækja á hreinleika- og upprunavottorðum á orkuframleiðslu til útlanda. Ekki er hægt að segja að svar ráðherrans hafi verið afdráttarlaus um eigin afstöðu, en það hljóðar svo: „Skoða þarf hvort sala uppruna­ábyrgða íslenskra orkufyrirtækja undanfarin ár hefur neikvæð áhrif á ímynd okkar sem lands sem er í fararbroddi þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum. Sömuleiðis þarf að athuga hvort og þá með hvaða hætti þetta fyrirkomulag hefur neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi, eins og hugsanlega í tilfelli  garðyrkjubænda. Þess vegna fagna ég því að iðnaðarráðherra hafi tekið málið til skoðunar og láti nú kanna í atvinnuvegaráðuneytinu hvaða leiðir séu færar í þessum efnum. Ráðherrann hefur í því sambandi nefnt að kanna þurfi möguleika á að orkufyrirtæki ríkisins hætti að selja eiginleika orku og dragi sig úr upprunavottunarkerfinu komi í ljós að tekjur af sölunni séu litlar um leið og of mikilvægum hagsmunum sé fórnað. Ég bind vonir við athugun atvinnuvegaráðuneytisins á málinu.“


ahættaErum í raun og veru að taka alveg gríðarlega áhættu

Viðar Garðarson, markaðsráðgjafi hjá Markaðsmönnum.is, var einnig fenginn í morgunþáttinn Í bítið til að ræða þessi mál. Þar tók hann mjög sterkt undir þau sjónarmið að sala þessara hreinleikavottorða væri að skaða Ísland og íslenska hagsmuni. Fór ekkert á milli mála hvernig hann lítur á þetta út frá viðskiptalegum hagsmunum Íslands. Viðar sagði m.a.:

„Það má segja að allt sem við Íslendingar gerum tengist hreinleika á einhvern hátt. Ferðamennskan okkar byggir á hreinni náttúru. Matvælaframleiðslan okkar er hrein. Við erum að selja fisk í stórum stíl erlendis úr hreinni auðlind og menn geta bara rétt ímyndað sér hvaða áhrif það hefði ef það kæmist í hámæli erlendis að orkuvottun okkar hér á Íslandi væri að stórum hluta byggð á jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. Það myndi hafa mjög, mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allar þessar greinar. Mér sýnist að orkufyrirtækin séu í raun og veru í einhverjum exel-leik. Vissulega eykur þetta tekjurnar þeirra, en áhættan sem við erum að taka er margföld þessi tekjuaukning. Við erum í raun og veru að taka alveg gríðarlega áhættu sem getur hitt okkur mjög illa, svona seinna í tímanum.“

Hann sagði að það væri mjög einfalt til hvaða ráða ætti að grípa gagnvart stærsta aðilanum í þessu máli.

„Eigendur Landsvirkjunar, þ.e. ríkisstjórn og ráðherra, þeir verða bara að tukta svolítið til þessa stjórnendur. Menn verða að gera sér grein fyrir því að áhættan er margfaldur ávinningurinn.“

Hann sagði að Íslendingar ættu að vera stoltir af því að framleiða græna umhverfisvæna orku því það gæfi okkur samkeppnisforskot á öllum sviðum gagnvart þeim sem ekki eiga græna orku.

„Við eigum að nýta okkur þetta að sjálfsögðu í útflutningi á öllu því sem við erum að flytja út og við eigum ekki að taka það í mál að það sé hægt að selja þessar vottanir.“
Alvarleiki málsins fer því ekki á milli mála í huga Viðars.

 

 

Heimild: Bændablaðið

Fleira áhugavert: