Er Oroville stærsta stífla Bandaríkjanna að bresta?
Yfir 180 þúsund manns í Norður-Kaliforníu hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna þess að hætta er á að Oroville-stíflan sé að bresta. Stíflan er sú stærsta í Bandaríkjunum.
Mikil úrkoma var á þessu svæði um helgina og var farið að flæða yfir varnargarða hennar. Þrátt fyrir að það sé hætt hafa yfirvöld ákveðið að aflétta ekki banni við að fólk snúi aftur til síns heima.
Vatnshæðin hefur hækkað mjög í uppistöðulóni stíflunnar vegna mikillar úrkomu, bæði rigningar og snjókomu, en mjög þurrt hefur verið á þessum slóðum í mörg ár.
Þetta er í fyrsta skipti sem Oroville-vatn, sem er 105 km norður af Sacramento, fer yfir varnargarða stíflunnar í tæplega 50 ára sögu hennar.
Síðdegis í gær var ítrekað send út beiðni til íbúa um að yfirgefa heimili sín og var margendurtekið að þetta væri ekki æfing.
Íbúum í bænum Oroville, en íbúarnir eru alls um 16 þúsund talsins, var gert að halda í norður og myndaðist örtröð á þjóðveginum á leið út úr bænum. Voru ýmsir bæjarbúar ósáttir við hversu seint viðvörunin kom. Skortur sé á neyðarathvörfum og öll hótel uppbókuð.