Kjarnorkuslys – Er hættan vanmetin?
September 2016
Líkurnar á kjarnorkuslysum á borð við þau sem urðu í Chernobyl í Úkraínu 1986 og í Fukushima í Japan 2011 eru vanmetnar að því er fram kemur í greinum sérfræðinga um áhættumat sem birtust nýlega í tímaritunum Energy Research & Social Science og Risk Analysis. Vissulega er tíðni kjarnorkuslysa á niðurleið en slysið sem verða eru þeim mun stærri.
Höfundar greinanna telja meira en 50% líkur á að slys af svipaðri stærð og í Chernobyl og Fukushima verði einu sinni til tvisvar á öld og meira en 50% líkur á að slys á borð við það sem varð á Þriggjamílnaey í Bandaríkjunum 1979 verði á 10-20 ára fresti. Auk heldur sé aðferðum sem notaðar eru til að meta alvarleika og kostnað af kjarnorkuslysum áfátt.
Þess má geta að heildartjón vegna slyssins í Chernobyl er nú metið á 259 milljarða dollara eða sem samsvarar tæplega 30 þúsund milljörðum ísl. kr.
(Sjá frétt Science Daily 19. september)