Sveitarfélögin verða að koma fráveitumálum í lag samkvæmt laganna hljóðan
Ágúst 2013
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að það sé ofviða mörgum sveitarfélögum að standa straum af kostnaði við fullnægjandi fráveitur. „Ef ekkert verður gert varðandi fjármögnun þá munu ákveðin sveitarfélög ekki fara í þetta verkefni, þau hreinlega geta það ekki,“ segir hann.
Nauðsynlegt sé að ríkið komi að fjármögnun. Fyrir nokkrum árum hafi ríkið veitt styrki en fjármagnið hafi ekki dugað til. Stærstu sveitarfélögin og þau sem hafi átt auðveldast með að leysa sín mál hafi þá fengið stuðning frá ríkinu á meðan önnur í erfiðari sporum hafi setið á hakanum.
Sigurður Ingi segir að gæta þurfi jafnræðis enda hafi sum sveitarfélög fengið meiri aðstoð en önnur. Þó þurfi að taka mið af fjárráðum ríkisins. Hann hefur kallað eftir yfirliti um stöðu mála svo bregðast megi við ástandinu sem fyrst. „Það er hins vegar alveg ljóst að við verðum að gera þá kröfu til sveitarfélaganna að þau gangi í þetta verk samkvæmt laganna hljóðan.“
Hann gerir ekki athugasemdir við uppbyggingu eftirlitskerfisins. Hvort sem sveitarfélög eða ríkið skipi eftirlitsaðilana þá vinni þeir innan síns lagaramma.