Reykjanesvirkjun – Meta umhverfisáhrif geislavirkra efna
Desember 2015
Í september var greint frá því að geislavirkni hefði uppgötvast í útfellingum frá borholum við Reykjanesvirkjun. Það var í fyrsta skipti sem þetta uppgötvast hér á landi. Í nóvember kom í ljós að virknin var allt að tvöfalt meiri en upphaflega var talið. Geislavarnir ríkisins segja hins vegar að lítil hætta stafi af geisluninni, séu útfellingarnar rétt meðhöndlaðar. Skipulagsstofnun hefur haft málið til skoðunar síðan greint var frá virkninni.
„Við höfum verið að fara yfir þetta síðan þetta kom á daginn, eða síðan það komu fréttir af þessu í september,“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.
„Við höfum fengið upplýsingar frá Geislavörnum ríkisins fyrst og fremst en líka frá heilbrigðiseftirlitinu. Þetta eru hvort tveggja leyfisveitendur í þessu máli sem fara með þessi mál. Og við höfum sérstaklega verið að fá upplýsingar frá Geislavörnum í október og nóvember um hvað var að koma út úr mælingum þarna. Og þá kom óyggjandi fram að þarna er að mælast geislavirkni. Þá virkjast ákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum sem við höfum ekki ennþá þurft að beita hér á landi. Það eru þar ákvæði um að förgun geislavirkra efna er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er það sem við höfum tilkynnt rekstraraðila Reykjanesvirkjunar um, það er að segja HS Orku, og svo þessum leyfisveitendum. Næsta skref í þessu máli, í ljósi þess að þarna komu fram geislavirk efni, er að leggja mat á umhverfisáhrif þess, hvernig unnið er með þau og hvernig þeim er fargað.“
Er þá að einhverju leyti farið í nýtt umhverfismat?
„Það er í rauninni bara viðbótin eða breytingin á virkjuninni sem þarf að fjalla um. Það er að segja þessi geislavirku efni, að reyna að skýra uppruna þeirra, hvað má vænta mikils magns af þeim, hvaða viðbúnað þarf að hafa við meðhöndlun þeirra og hvernig ber að standa að förgun þeirra og frágangi förgunarsvæðis.“
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Reykjanesvirkjun?
„Við höfum átt samtal við Geislavarnir um umfang og alvarleika þessa máls og það er okkar skilningur að það eigi alveg að vera hægt að ganga vel frá þessu og að allur umbúnaður eigi að geta verið traustur og öruggur. Þetta er ákveðin málsmeðferð sem þarf að fara í til þess að greina eðlið og umfangið og ganga frá viðeigandi viðbúnaði og frágangi förgunar þannig að allir hlutaðeigandi viti af og séu sáttir við.“
Er þetta fyrst og fremst skriflegt ferli eða felast í þessu frekari rannsóknir?
„Það eru einhverjar rannsóknir og mat sem þarf að fara fram á vegum framkvæmdaraðila eða rekstraraðila virkjunarinnar í samráði við Geislavarnir. Það eru náttúrulega mælingar sem þurfa að fara fram á þessum brotum úr borholunum, til dæmis. Síðan fer þetta í það ferli sem er fyrirskrifað í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er ákveðið kynningarferli gagnvart almenningi, gagnvart umsagnaraðilum og svo álit okkar stofnunar í lokin.“
Verður veitt leyfi fyrir geymslu og förgun á þessum efnum áður en matinu er lokið?
„Það á ekki að vera gert, nei.“
Búið að hringja viðvörunarbjöllum
Umhverfismat Reykjanesvirkjunar var gert á árunum 2000-2002, kom fram við það mat að geislavirk efni gætu fallið til?
„Nei þetta er eitthvað sem enginn sá fyrir og kemur öllum á óvart. Og nú er reyndin orðin sú að það hefur fundist geislavirkni í brotunum sem eru brotin úr borholunum við Reykjanesvirkjun. Svo er spurningin hvort það segi okkur eitthvað um aðrar jarðhitavirkjanir á Íslandi. Við erum með nokkrar aðrar, bæði á Reykjanesi, á Hengilssvæðinu og norður í landi. Það er atriði sem er verið að skoða. Það er ekkert víst að þetta þýði að það megi almennt vænta geislavirkni í jarðhitavirkjunum. En það þarf að athuga.“
Nú hafa Geislavarnir lagt nokkra áherslu á að lítil hætta stafi af þessu, svo lengi sem efnin séu rétt meðhöndluð, skiptir það ekki máli?
„Við leggjum ekkert mat á það. Geislavarnir eru sérfræðistofnun á þessu sviði og vafalítið er það rétt mat sem þar kemur fram. Það breytir því ekki að þarna er að mælast geislavirkni yfir viðmiðunarmörkum og það þarf að fara í sinn rétta farveg.“
Hvað með framtíðina – verður möguleiki á geislavirkni tekinn inn í umhverfismat á nýjum jarðvarmavirkjunum hér eftir?
„Við lítum svo á að þarna sé búið að hringja ákveðnum viðvörunarbjöllum sem við hljótum að taka með í reikninginn þegar jarðvarmavirkjanir koma til umfjöllunar í framtíðinni, já.“
Þannig að það verði hluti af umhverfismati?
„Já. Að gera grein fyrir hvort megi vænta geislavirkra efna í borholum.“
Hefði viljað fá fréttirnar strax
Nú bárust fyrst fréttir af þessum málum í september – hvernig voru boðleiðirnar milli Geislavarna og Skipulagsstofnunar?
„Ég held nú að það megi læra af því, að þær megi vera skýrari. Þarna erum við lent í því sem stundum er kallað síló á milli ráðuneyta og stofnana sem heyra undir ólík ráðuneyti. Ég veit ekki hvort það megi skýra þetta með því en auðvitað hefðum við viljað vita af þessu. Og teljum að við hefðum átt að frétta af þessu strax og málið kom upp í sumar, en það kom sem sagt á daginn með fréttum RÚV í september og við höfum bara brugðist við eftir að það kom á daginn.“
Hvernig fréttuð þið hjá Skipulagsstofnun fyrst af þessu máli?
„Við fréttum af því í fréttum Ríkisútvarpsins í september.“
Hvernig hefði boðleiðin átt að vera að þínu mati?
„Hún hefði átt að vera skýr til okkar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum strax í sumar frá þeim sem höfðu vitneskju um málið, annað hvort stjórnvalda eða framkvæmdar- eða rekstraraðila,“ segir Ásdís Hlökk.
Hér má lesa greinargerð Skipulagsstofnunar um málið.