Keflavíkurflugvöllur tekur 25 milljónir farþega árið 2040

Heimild:  

 

FLE

Stefnt er að því að Keflavíkurflugvöllur geti tekið á móti 25 milljón flugfarþegum, árið 2040 samkvæmt þróunarætlun Isavia sem kynnt var í dag. Það nægir þó ekki að stækka völlinn til þess að fjölga farþegum, það þarf líka að dreifa álagi á flugvellinum jafnt yfir sólarhringinn.

Miðað við núverandi flugáætlun verður hægt að taka á móti fjórtán milljónum farþega á árið 2040 – en verði álaginu dreift getur fjöldinn farið í 25 milljónir.

Framkvæmdir verða unnar í áföngum og ræðst af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið þurfi að leggja til fjármuni til framkvæmdanna.

Stækkunin styður við ferðamálastefnuna Vegvísi í ferðaþjónustu sem Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar kynntu á dögunum. Þar er gert ráð fyrir aukningu á tekjum í formi gjaldeyris vegna komu erlendra ferðamanna.

 

Björn Óli Hauksson

Björn Óli Hauksson

„Þarf að vera aðstaða til að koma þeim til landsins“
Þróunaráætlunin nefnist Masterplan og hana má lesa í heild sinni hér.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir í tilkynningu að til þess að hægt sé að ná þeim markmiðum sem hafa verið sett varðandi ferðaþjónustu á komandi árum sé nauðsynlegt að hægt sé að taka á móti ferðamönnum: „Til þess að þessar áætlanir geti orðið að veruleika og ferðaþjónustan nái að skapa þessar gjaldeyristekjur þarf að vera aðstaða til að koma þeim til landsins,“ segir Björn. Hann segir það ekki ganga að Keflavíkurflugvöllur verði flöskuháls í þeirri uppbyggingu.

Fleira áhugavert: