Rafmagnshitun

Heimild:  

 

Rafmagnshitun

Inngangur

Veðurfar á Íslandi er með þeim hætti að nauðsynlegt er að hita híbýli fólks flesta daga ársins. Mikill meirihluti landsmanna býr við hitaveitur en aðrir njóta rafhitunar. Hér verður athyglinni beint að þeim sem nota rafmagn til hitunar. Hitaveitunotendum skal bent á ritið Hitamenning sem orkufyrirtækin í landinu og Verkvangur hf. gáfu út 1998 og fjallar um bætta nýtingu heits vatns til húshitunar.

Þegar fjallað er um upphitun húsa kemur mörgum í hug samanburður á ódýrum hitaveitum og rafhita. Vissulega skiptir verðið miklu máli en ýmsar aðstæður og umgengnisvenjur fólks hafa ennfremur mikil áhrif á útgjöld vegna húshitunar. Hér á eftir verður fjallað um hvernig nýta má hitann á sem hagkvæmastan hátt, með það í huga að spara verðmæti og nota ekki orkuna að óþörfu.

Margir þættir hafa áhrif á orkunotkun til húshitunar. Þar má m.a. nefna mismunandi veðurfar á ýmsum stöðum, staðsetningu húsa, gerð og aldur húsa, einangrun, notkunarvenjur, samsetningu fjölskyldu, tæki, búnað og fleira. Nokkrir fyrrgreindra þátta eru þess eðlis að erfitt er að breyta þeim og þeir eru því aðeins taldir með sem skýring (dæmi: veðurfar og staðsetning húss). Mörgum öðrum þáttum er á hinn bóginn hægt að breyta til betri vegar.

Orkutap

Oft er talað um orkutap í húsum þegar sú orka sem aflað er (keypt) nýtist ekki á tilætlaðan hátt, t.d. til að hita húsnæði. Hús verður fyrir orkutapi vegna hitamunar úti og inni. Það gerist aðallega með tvennum hætti; þ.e. með leiðni annars vegar og loftskiptum hins vegar. Slíkt orkutap er óhjákvæmilegt, en oft er hægt að draga verulega úr því. Byggingarefni hafa mjög mismikla varmaleiðni. Venjuleg steinsteypa hefur margfalda varmaleiðni á við t.d. timbur. Til eru timburhús sem þurfa tiltölulega litla einangrun samanborið við steinsteypt hús. Steinsteypt hús eru hins vegar oft mun þéttari en timburhús og tapa síður varma þess vegna. Þannig geta mismunandi húsgerðir haft sína kosti og galla í þessu tilliti.

Mörg eldri hús eru illa einangruð miðað við nútímakröfur og varmatap frá þeim er mikið af þeirri ástæðu einni. Einnig eru mörg þeirra óþétt og mikið varmatap á sér stað þegar vindur blæs. Úr þessu má oft bæta með aukinni og endurbættri einangrun, klæðningu húss og endurnýjun hurða og glugga. Stór hluti varmans í gömlum húsum tapast út um einfalt gler, óþétta glugga og hurðir og illa einangrað þak. Vandasamt getur verið að bæta úr þessum þáttum þannig að árangur náist og ættu húseigendur að gæta þess að fá ætíð ráðgjöf fagmanna áður en ráðist er í kostnaðarsamar framkvæmdir. Oft má ná góðum árangri með tiltölulega litlum aðgerðum.

Hitastýring

Hitaþörf er mismunandi frá degi til dags og því er nauðsynlegt að hafa stjórn á upphituninni. Næsta vonlaust verk er að stjórna hitanotkun með handafli einu saman. Nauðsynlegt er að hafa sjálfvirka stýringu (hitastilli, „thermostat“) til að takmarka orkunotkun við þörfina.

Þilofnar

Flestir þilofnar (rafmagnsofnar) eru með innbyggðan hitastilli. Hægt er að stilla þá hvern fyrir sig en stundum er einnig settur sameiginlegur hitastillir. Kosturinn við þilofna er að þeir eru fljótir að hitna og svara vel hitaþörfinni. Margar gerðir þeirra hitna þó það mikið að nokkur slysahætta getur stafað af og einnig þurrka þeir andrúmsloftið. Þess má geta að til er sérstök gerð olíufylltra þilofna sem verða ekki eins snertiheitir og aðrar gerðir rafofna og líkjast meira venjulegum miðstöðvarofnum.

Miðstöðvarofnar

Á mörgum stöðum er rafmagn notað með óbeinum hætti til húshitunar, þ.e. vatn er hitað í geymum og leitt í gegnum miðstöðvarkerfi. Í þeim tilfellum bætist við nýtt verkefni til að glíma við en það er flæði vatnsins og stýring þess.

Staðsetning ofna

Á liðnum áratugum hafa ofnar verið settir á útvegg, yfirleitt undir glugga. Það er hin eðlilega staðsetning. Í eldri gerðum húsa hins vegar, einkum þeirra sem byggð voru á tímum olíu og kolakatla, eru pípulagnir í miðju húsi og ofnar innst í herbergjum. Slík staðsetning er afar óheppileg og kallar á óþarfa orkunotkun. Skýringin er sú að heita loftið leitar upp frá ofninum innst í herberginu en kalda loftið frá glugganum fellur niður með útvegg. Þetta tvennt skapar hringrás sem er óheppileg fyrir vistarveruna. Heitt loft safnast upp við loft (af því að það er léttara en kalt loft) en kaldur loftstraumur leikur eftir gólfinu, íbúum til óþæginda. Svar íbúans er að bæta við hitann vegna þess að hrollkalt er inni þar sem hann situr við lestur og sjónvarp. Bráðabirgðalausn gæti verið sú að setja viftu í loftið sem jafnaði hitann. Endanleg lausn er hinsvegar endurnýjun ofnakerfisins, því auk óheppilegrar staðsetningar ofnanna er að öllum líkindum um að ræða óhentugar, gamlar lagnir.

En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Þar sem ofnar eru undir gluggum koma fram önnur vandamál. Eitt lýtur að hitastýringu. Ef hitastillir sem stjórnast af lofthita er á ofninum kann opinn gluggi að kalla fram óþörf viðbrögð. Þetta er stundum leyst með því að gæta þess að opni glugginn sé ekki sömu megin og hitastillir, eða með því að færa skynjara hitastillis frá glugganum. Annar vandi er sá að stundum hylja húsgögn eða gluggajöld ofninn svo að eðlilegt hitastreymi fæst ekki.

Gler, einangrun o.fl.

Gler

Flest hús núorðið eru með tvöfalt gler í gluggum og jafnvel þrefalt. Einangrunargildi tvöfalds verksmiðjuglers er um og yfir þrefalt meira en einfalds glers. Sumir nota svokallað „mixað“ gler, þ.e. gler sem er tvöfaldað með trélista eða kítti á milli. Einangrunargildi slíks glers fer eftir frágangi, en yfirleitt er mikil bót að því, miðað við einfalt gler, og getur jafnvel jafnast á við verksmiðjugler, sé vandað til frágangs.

Einangrun

Mörg gömul hús eru, eða öllu heldur voru, mörg hver einangruð með því sem hendi var næst, torfi, hálmi, spónum og síðar meir korki. Sum þessara efna geta brugðist með tímanum, rýrna og hverfa sum hver. Torf eða reiðingur fellur smátt og smátt niður holrúm veggjanna og rýrir þannig einangrun í stórum hlutum þeirra.

Hægt er að gera sérstakar mælingar á einangrun húsa og bæta hana, t.d. utan frá með klæðningu.

Loftskipti

Loftskipti verða með tvennum hætti í húsum, vegna óþéttleika annars vegar og loftræstingar hins vegar. Óþéttleikinn stafar oftast af göllum í byggingarhlutum, slæmum frágangi glugga, hurða eða einangrunar. Úr því má oft bæta með þéttilistum og öðrum einföldum úrbótum. Loftræstingu má hins vegar stýra nokkuð. Sumir hafa stöðugt rifur á gluggum og loftræsta þannig, en aðrir lofta hressilega út öðru hverju. Mælt er með síðarnefndu aðferðinni, hin fyrri er ómarkviss og leiðir til orkusóunar, þar sem ekki er fylgst með hvort loftskipti verði meiri en nauðsynlegt telst. Auk þess er líklegt að slík loftræsting valdi dragsúgi og öðrum óþægindum.

„Ókeypis“ varmi

Það eru ekki einungis ofnarnir sem hita upp heimilið, töluverður varmi berst frá ljósum og ýmsum raftækjum, svo sem eldavél og kæliskáp. Þá er ótalinn varmi frá sólargeislum og mannfólki. Margir kannast við lýsingar á baðstofum fyrri alda sem stundum nutu yls frá gripahúsum. Talið er að slíkur „ókeypis“ varmi geti verið meira en þriðjungur af heildarvarmaþörfinni. Því er mikilvægt að stjórnbúnaður ofnakerfis bregðist rétt við þessum varma.

Heitt vatn

Neysluvatn er hitað með rafmagni til þvotta. Mikilvægt er að nota nægilega stóra vatnsgeyma þannig að vatn nægi til daglegra nota fjölskyldunnar, svo sem vegna baðs o.fl. Því minni sem geymirinn er, þeim mun hærra hitastig þarf að vera á vatninu til að mæta þörfum notandans. Með stærri geymum má halda hitastiginu niðri og draga þannig úr slysahættu. Nægilegt er að halda vatninu 50-55°C heitu.

Mun meira baðvatn er yfirleitt notað í baðkeri en í sturtu, því ætti sturta að hafa forgang til baða.

Hvað telst eðlileg orkunotkun?

Raforka er mæld í einingum sem kallast kílówattstundir, skammstafað kWh. Orkunotkun er mismunandi eftir landshlutum og veðurfari annars vegar og húsnæði og notkunarvenjum hins vegar. Þó er talið að notkun á bilinu 70-90 kWh á ári fyrir hvern hitaðan rúmmetra húsnæðis sé eðlileg. Fari notkun fram úr þessu er rétt að athuga málin nánar. Samkvæmt þessu ætti orkunotkun 400 rúmmetra húss að vera á bilinu 28-36.000 kWh á ári. Orkunotkun á rúmmetra er minni eftir því sem hlutfall útveggja og þaks minnkar, svo sem í rað- og fjölbýli.

Hver er orkunotkun þín til upphitunar? Hve stórt er hið upphitaða húsrými í rúmmetrum? Prófaðu að deila rúmmáli húsnæðisins í ársnotkun þína og hugleiddu niðurstöðuna. Leitaðu ráða hjá fagmönnum ef þú ert í vafa.

Fleira áhugavert: