Konur í iðngeinum (karlastörfum?) – Stofna félagasamtök
Fyrirhugað er að stofna félag kvenna sem starfa í karllægum iðngreinum hérlendis, í kjölfar óformlegs fundar hóps iðnkvenna, sem haldinn var fyrir skömmu.
Hugmyndin spratt upp úr hópnum Konur í iðnaðarstörfum, sem Guðný Helga Grímsdóttir smiður stofnaði á Facebook. Þar ræddu konur saman um mismunandi iðngreinar og stöðu sína í þeim. Svanbjörg Vilbergsdóttir, löggiltur meistari í pípulögnum, sem tók sveinspróf í pípulögnum 2011 og meistarapróf 2013, segir að fljótlega hafi komið í ljós í þessum umræðum að konur í karllægum iðngreinum vildu hafa sameiginlegan vettvang og í kjölfarið hafi verið stofnaður hópurinn Fagkonur. Í kjölfarið hafi þær Guðný Helga ákveðið að boða til óformlegs fundar um mikilvægi þess að stofna félag fyrir konur í þessum greinum.
Margar konur sama sinnis
„Ég hef hugsað um þetta lengi,“ segir Svanbjörg og áréttar að hún sé ekki ein á þessari skoðun, því margar konur séu sama sinnis. Það hafi greinilega komið fram á umræddum fundi. Hann hafi verið vel sóttur en margar konur hafi þurft að boða forföll vegna vinnu úti á landi eða erlendis.
„Við fórum líka yfir ríkjandi viðhorf til kvenna í þessum iðngreinum og áreiti sem þær verða fyrir,“ segir Svanbjörg. „Það vantar vettvang fyrir okkur til þess að hittast og tala saman auk þess sem okkur langar til þess að styðja konur sem vilja fara út í svona nám, kynna iðnnám fyrir stelpum í grunn- og framhaldsskólum og gera þeim grein fyrir því að þær eiga val um að fara í iðngrein. Nám í þessum greinum er ekki aðeins fyrir karlmenn, en margar konur gera sér ekki grein fyrir því og þess vegna dettur þeim þessi möguleiki ekki í hug.“
Nám í pípulögnum varð fyrir valinu hjá Svanbjörgu launanna vegna. Hún segir að sem einstæð móðir með tvö börn hafi hún þurft á góðum tekjum að halda. „Ég þurfti að fá laun eins og karlmaður til þess að sjá fyrir okkur,“ segir hún.
Svanbjörg segir að á fundinum hafi verið áberandi að konur eiga oft erfitt með að fá samning, en hún segist sjálf hafa verið heppin með meistara, hafi strax komist á samning hjá JB Pípulögnum og fyrirtækið hafi reynst henni vel. Nú á hún og rekur fyrirtækið Lagnafóðrun, sem sérhæfir sig í því að fóðra skolplagnir. „Það er alveg vitlaust að gera,“ segir hún.
Guðný Helga hefur tekið að sér að sjá um undirbúningsvinnuna fyrir stofnfundinn. Félag pípulagningameistara hefur aðstoðað þær með aðstöðu og Iðan fræðslusetur hefur einnig verið þeim innan handar, meðal annars við að finna nöfn kvenna sem hafa útskrifast í viðkomandi greinum. Svanbjörg segir að um 40 konur séu í byggingargreinunum en þær eigi eftir að fá yfirlit yfir konur í ýmsum öðrum greinum eins og rafiðn og járnsmíði. „Margar konur starfa í þessum greinum og við viljum líka ná til þeirra.“