Verður tíföldun í framleiðslu eldisfisks?

Heimild:   visir

 

eldisfiskur

Sjókvíaeldi er ört vaxandi atvinnugrein á Austfjörðum – MYND/FISKELDI AUSTFJARÐA

Fyrirtæki í sjókvíaeldi vonast til að tífalda framleiðsluna á næstu árum. Fiskeldisfyrirtæki landsins hafa sótt um leyfi til að framleiða yfir 150 þúsund tonn af fiski á hverju ári en nú eru um 15.000 tonn framleidd í öllum tegundum.

„Það tekur langan tíma að byggja upp eldið og því ljóst að takmörkun fiskeldissvæða til verndar villtum laxastofnun þýðir að miklar rannsóknir munu þurfa að fara fram á burðarþoli svæðanna áður en hægt er að framleiða þetta magn,“ segir Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.

Vöxtur greinarinnar er mestmegnis bundinn við sjókvíaeldi og svæðin hér á landi sem skilgreind hafa verið sem svæði fyrir þann iðnað eru þrjú: Austfirðir, Vestfirðir og Eyjafjörður. Atvinnusköpun sem af eldisstarfseminni hlýst, sem og afleidd störf, hefur verið til þessa talinn sterkur grunnur undir byggð sem hefur verið í vörn síðustu ár.

 

Höskuldur Steinarsson

Höskuldur Steinarsson

„Við teljum að rúmlega þúsund störf verði í greininni fyrir árið 2020 og þá á eftir að telja öll afleidd störf sem verða til við að þjónusta greinina,“ segir Höskuldur.

Arnarlax, Fiskeldi Austfjarða, Arctic Sea Farm eða Dýrfiskur og Laxar fiskeldi eru stærstu sjókvíaeldisfyrirtækin og stefna hátt.

Nú starfa um 400 manns beint við eldi í landinu og með stöðugum vexti verður hægt að fjölga störfum. Vestfirðir hafa í langan tíma barist við slæmar horfur í atvinnulífi lítilla sjávarþorpa og ef áform ganga eftir gæti íbúum á Vestfjörðum fjölgað aftur.

„Sameinuðu þjóðirnar hvetja til dæmis þjóðir heims til að standa fyrir auknu fiskeldi þar sem því verður við komið. Villtir fiskistofnar munu ekki standa undir þeirri mannfjöldaaukningu sem spár næstu fimmtíu ára gera ráð fyrir,“ segir Höskuldur.

Landssamband fiskeldisstöðva telur gjaldeyristekjur þjóðarinnar af greinini nú um 15 milljarða króna. Sú tala verði komin í 50 milljarða árið 2020.

Fleira áhugavert: