Asbeströr – Asbest í eldri byggingum
Almennur skilningur á því að margskonar efni sem unnið er úr og unnið með, geti verið skaðleg hefur sem betur fer aukist á seinustu árum. Þessi skilningur var mjög takmarkaður fyrir nokkrum áratugum og það skilningsleysi, eða öllu heldur þekkingarskortur, tók sinn toll.
Fyrir hálfri öld eða svo þótti asbest gott efni og til margra hluta nytsamlegt. Fyrst barst það hingað til lands sem þilplötur, smiðir notuðu þetta talsvert og söguðu asbest eins og um timbur væri að ræða og gerðu sér enga grein fyrir að hárfínt sag, sem þá myndaðist, var hættulegt heilsu manna.
Þá bárust til landsins skólprör úr asbesti og þótti mörgum þetta himnasending, þau voru ódýrari en hin hefðbundnu pottrör, sem þá voru notuð til innanhússlagna og miklu léttari og þess vegna léttara að vinna úr þeim.
En asbeströr voru notuð í fleira en frárennsliskerfi, heilu hitaveiturnar voru lagðar úr asbesti og er ekki langt síðan að svo var gert. Þessar hitaveitur eru enn í fullu gildi og asbeströrin hafa enst þokkalega vel.
Ástæður þess að farið var að nota asbeströr til hitaveitulagna voru af tvennum toga, annars vegar vegna þess að þau voru mun ódýrari en stálrör og hins vegar að þau tærðust ekki eins og þau.
Þá var á tímabili flutt inn asbest í pokum, þetta asbest þótti mjög heppilegt til að einangra samskeyti á sverum sýnilegum stálrörum. Asbestinu var hellt úr pokanum í stóran bala og síðan bleytt, þá var komin ágæt lögun sem hægt var að móta einangrun úr í sömu þykkt og þeir hólkar sem á rörunum voru, síðan var oftast vafin gifsbleytt grisja yfir, síðan málað þegar mikið var haft við.
Heilsuspillandi
Það er hægt að fullyrða að tvennt af því, sem að framan er talið hafi verið heilsuspillandi. Í fyrsta lagi að saga asbestplötur eins og fyrr var sagt og í öðru lagi að vinna með það sem kalla má asbestsement og notað var til einangrunar. Að leggja asbeströr gat einnig haft hættu í för með sér þegar saga þurfti rörin og hjá því varð ekki komist, einkum við lögn frárennslisröra úr asbesti.
En ekkert var þó eins hættulegt og asbestsementið, það var hætta sem enginn gerði sér grein fyrir. Það mun hafa verið aðallega frá 1950- 1970 sem asbestsementið var notað og notkun efnisins var á verksviði pípulagningamanna.
Við blöndun, þegar innihaldinu var hellt í ílát til blöndunar við vatn, þyrlaðist upp fínasta rykið og trefjarnar úr asbestinu og í þessi lofti unnu menn svo liðlki sé nú talað um í hitaveitulögnum?
Það kann að virðast þversögn að segja að notkun asbests er ekki heilsuspillandi til þessara nota, meira að segja ekki í hitaveitulögnum.
Það sem er heilsuspillandi við asbest er þegar það kemst sem örfínt ryk eða trefjar í öndunarveginn og ofan í lungun. Á þessu er ekki hætta þegar efnið er notað sem rör í lagnakerfi þótt því fylgi vissulega vandamál.
Hætta fylgir því að hreinsa asbest úr byggingum
Hver er ending asbeströra í frárennsliskerfum? Það er ekki nema von að þeir sem vita af þesskonar lögnum í sínum húsum velti þessari spurningu fyrir sér. Það er svo langt síðan hætt var að nota asbeströr í frárennsliskerfi, líklega 30-40 ár, það sýnir hvað þessi rör eru orðin gömul.
En hver er ending þeirra?
Um það er ekki hægt að gefa óyggjandi svar (ef einhver hefur slíkt svar væri það kærkomið), en fullyrða má að öruggast sé fyrir þá sem hafa slíkar lagnir í húsum að endurnýja þær sem fyrst. Það sem gerist í frárennslisrörum úr asbesti er að þau fúna með aldrinum, hanga þó lengi saman en detta stundum í sundur við það eitt að við þeim sé hróflað.
En þá kemur að mikilvægu atriði og það er hættan sem fylgir því að fjarlægja gamalt asbest. Gömul asbeströr eru þó engan veginn eins hættuleg og asbestsementið sem enn er finnanlegt sem einangrun á rörum í sumum byggingum. Það ætti enginn að hreyfa við gömlu asbesti án þess að kalla fyrst til Vinnueftirlitið, sem gefur ákveðin fyrirmæli um hvernig á að vinna að hreinsun asbests. Við þá vinnu þarf að vera í mjög góðum hlífðarfatnaði og ekki síður að vera með mjög vandaðar grímur fyrir vitum. Víða erlendis eru það ekki nema sérþjálfaðir menn sem hafa leyfi til að hreinsa asbest úr byggingum.
Þessum reglum á að fara eftir hvarvetna þar sem vitað er að asbest er í byggingum og ekki síður ef menn koma að asbesti þar sem ekki var við því búist. Þá er best að staldra við koma sér af staðnum og loka honum fyrir öðrum. Fá síðan þá ráðgjöf og varnarbúnað sem nauðsynlegur er til að vernda heilsuna, það má í raun segja til að vernda lífið.
Ef óvarlega er farið koma afleiðingarnar oft ekki í ljós fyrr en árum eða áratugum seinna.