Eflum fagmennsku – Takmörkum tjón
Mars 2014
Guðmundur Páll Ólafsson, formaður Félags pípulagningameistara, segir ekkert hæft í því að félagið hafi staðið í hótunum við lagnaverslanir sem leigi almenningi tæki og tól til framkvæmda. Hann segir að samstarfsverkefni hafi aftur á móti verið hleypt af stokkunum til að draga úr vatnstjóni og efla fagmennsku í pípulögnum.
Greint var frá því að maður sem ætlaði að leigja snittvél hjá Byko til að laga lekavandamál hefði fengið þau svör að honum stæði vélin ekki til boða. Sú skýring var gefin að meistarafélag pípulagningamanna hefði hótað versluninni því að hætta í viðskiptum við hana ef þeir leigðu almenningi tækið.
Guðmundur segir í samtali við mbl.is að þetta sé af og frá. Hann bendir hins vegar á að ellefu fyrirtæki, stofnanir og samtök hafi myndað samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni.
Vatnsvarnarbandalagið vill auka þekkingu
Í hópnum er Félag pípulagingameistara, Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Iðan fræðslusetur, Mannvirkjastofnun, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök um loftgæði, Sjóvá-Almennar tryggingar, TM, VÍS og Vörður tryggingar.
Guðmundur bendir á að í fyrra hafi að meðaltali verið tilkynnt um 18 vatnstjón á dag og að það hafi farið um þrír milljarðar krónar í að bæta tjónin. Hann segir að hópurinn, sem kallast Vatnsvarnarbandalagið, telji að mjög megi draga úr þessu tjóni með fræðslu til almennings og aukinni þekkingu og fagmennsku iðnaðarmanna.
Allra hagur að sérhæft lagnaefni sé ekki til sölu fyrir almenning
„Það geta allir verið sammála um það að það sé hagur allra að sérhæft lagnaefni sé ekki til sölu fyrir almenning. Það vill enginn festa kaup á fasteign sem gerð hefur verið upp af einhverjum sem taldi sig geta þetta sjálfur til að græða meira eða spara sér pening,“ segir Guðmundur.
Hann bætir við, að það sé að svo mörgu að huga þegar komi að frágangi lagnakerfa, m.a. vali á réttum lögnum og stærðum, samsetningu tengistykkja, frágangi í votrýmum, einangrun tengistykkja, einangrun lagna í útvegg, hljóðvist o.sfrv.
„Þetta hafa allar betri lagnaverslanir séð og farið í fullt samstarf með okkur um að vera ekki að selja sérhæfð lagnaefni til almennings og lána tæki til að vinna með það. Við erum ekki að finna upp hjólið hér, þetta hefur verið svona á Norðurlöndunum í mörg ár,“ segir Guðmundur ennfremur.
Óviðunandi frágangur leiðir til tjóns
Á heimasíðu fræðslusetursins Iðunnar er haft eftir Ólafi Ástgeirssyni, sviðsstjóra hjá Iðunni, að mikill metnaður sé fyrir því hjá meistarafélögum iðnaðarmanna að auka fagmennsku og þekkingu í gerð og frágangi votrýma.
„Við erum meðal annars að svara eftirspurn frá iðnaðarmönnum sem vilja afla sér sérþekkingar á þessu sviði. Alltof algengt er að tjón verði vegna þess að frágangur í baðherbergjum, eldhúsum og þvottahúsum er unninn af fólki sem ekki hefur fagmenntun og kann ekki nægilega vel til verka, frágangur er ekki sem skyldi og röng efni eru notuð. Þetta getur haft gríðarlega óheppilegar afleiðingar fyrir húseigendur. Þeir verða fyrir talsverðu eignatjóni og jafnvel heilsutjóni þar sem kjöraðstæður myndast fyrir myglu,“ er haft eftir Ólafi á heimasíðu Iðunnar.