Tvinnbílar taka flugið í Noregi
Júní 2016
Tvinnbílar hafa sótt mjög í sig veðrið það sem af er árinu í Noregi og er sölu þeirra líkt við að hún sé komin í fluggírinn. Einkum eru það tengiltvinnbílar sem slegið hafa í gegn.
Fjórðungur allra nýskráninga frá áramótum eru fólksbílar með tvinnaflrás. Hafa 6.725 slíkir komið á götuna á árinu sem er 349% aukning frá sama tímabili í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá umferðarstofunni norsku.
Sömuleiðis hefur orðið aukning í sölu tvinnbíla sem ekki eru tengjanlegir við hleðslustöðvar, eða 35%, sem jafngildir 4.980 nýskráðum eintökum.
Ástæða þessarar aukningar er sögð sú, að mörg ný tvinnbílamódel hafi birst á markaði og einnig séu gjöld af þeim með þeim hætti að þessi bílategund er hagstæðari í kaupum og rekstri en bensín- og dísilbílar með sambærileg vélarafköst.
Til loka apríl var Mitsubishi Outlander mest seldi tvinnbíllinn. Af honum fóru 1.832 eintök af 6.725. Voru 91% allra seldra Outlander á tímabilinu með tvinnaflrás. Vinsældir þessa tvinnbíls eru raktar til þess, að hann sé eini tengiltvinnjeppinn með drif á öllum fjórum hjólum sem er að finna á norskum bílamarkaði.
Volkswagen Golf GTE er í öðru sæti yfir vinsælustu tengiltvinnbíla í Noregi en til aprílloka voru afhentir 1.552 slíkir. Tvinnbílar sem ekki er hægt að hlaða með taug eru í næstu sætum, Toyota Auris í 1.495 eintökum, Toyota RAV4 í 1.290 eintökum og Toyota Yarios í 1.246. Í sjötta sæti er svo tengiltvinnbíllinn Audi A3 með 812 eintök, Volkswagen Passat í sjöunda með 618 og Toyota Prius ótengjanlegur með 524 eintök. Í níunda sæti er BMW X5 með 471 eintak og Volvo V60 með 344.