Tæmdu salernistank flugvélar þegar hún var á lofti
Frá himninum rigndi einfaldlega miklu magni af mannaskít. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi sem níu ára tvíburar í Malmö í Svíþjóð upplifðu í síðustu viku þegar þau voru úti í garði að leika sér.
Á föstudagskvöldið í síðustu vikur voru tvíburarnir, Disa og Dennis, send út í garð til að taka leikföngin sín saman fyrir nóttina. Þá lentu þau í sannkölluðu skítaregni. Þetta var klukkan 22. Móðir þeirra, Christina Möller, sagði í samtali við Aftonbladet, að skyndilega hafi tvíburarnir kallað á hana og beðið hana að koma út.
„Þau sögðu að eitthvað hefði dottið af himnum og það lyktaði illa.“
Sagði Christina og bætti við að þegar hún kom út í garðinn hafi hún séð að eitthvað brúnt hafði lent á húsinu, pallinum og syni hennar. Þetta hafi lyktað mjög illa. Disa hafði náð að flýja undir skyggni þegar „rigningin“ skall á en Dennis var ekki svo heppinn.
Dennis varð því að fara beint í sturtu og voru vonbrigði hans enn meiri því hann var nýkominn úr sturtu enda hafði hann verið á fótboltaæfingu.
„Ég hef starfað sem hjúkrunarfræðingur í 25 ár og hef þrifið mikið af skít.“
Sagði Christina og var ekki í vafa að um mannaskít hafi verið að ræða.
Talsmaður SAS flugfélagsins sagði að skíturinn hafi ekki komið úr vél á vegum félagsins því í þeim sé lokað kerfi og ekki hægt að losa úr tönkum þegar þær eru á flugi. Aftonbladet segir að eftir öllu að dæma þá hafi verið um litla flugvél að ræða.
Christina lítur þó björtum augum á framtíðina þrátt fyrir allan skítinn.
„Það á að boða gæfu ef fuglaskítur lendir á manni. Við hljótum því að verða mjög heppin eftir þetta. Kannski ætti ég að spila í lottói?“