Stíflaðar fráveitur í suðrinu

Heimild:

.

April 2020

Klósettpappírsskortur veldur stíflum

Skortur á klósettpappír í kjölfar hömstrunar fólks eftir að faraldur COVID-19 braust út í heiminum hefur valdið stíflum í skolplögnum í Ástralíu. Vandamálið hefur valdið sérstökum usla í næststærsta fylki landsins, Queensland. Er ástæðan sú að íbúar Queensland virðast vera farnir að grípa til örþrifaráða í klósettferðum sínum og hafa sturtað niður ýmsu öðru en klósettpappír upp á síðkastið. Meðal þess sem hefur fundist í auknum mæli í skolplögnum fylkisins eru handþurrkur, blautþurrkur, dagblöð og gamall fatnaður. ABC news greinir frá þessu.

.

Rhett Duncan sem starfar hjá skolpreinsunarfyrirtækinu Unitywater er einn þeirra sem hefur þurft að glíma við auknar stíflur upp á síðkastið. Vildi hann minna fólk á það, í samtali við ABC News, að það eina sem ætti að fara í klósettin væri: „Piss, kúkur og klósettpappír“ þar sem þeir hlutir brotnuðu niður í vatninu.

Fram kemur í frétt ABC að þessi aukning á stíflum muni vera afar kostnaðarsöm en venjulega borga ýmsir landshlutar í Ástralíu milljónir dollara í að leysa stíflur í skolplögnum. Búist er við að sá kostnaður muni hækka umtalsvert.

Duncan sagði við ABC News að hann skildi vel að fólk væri örvæntingarfullt ef það ætti ekki klósettpappír.

„Við skiljum að fólk sem á ekki klósettpappír þurfi að gera það sem það þarf til að klára sig af. En ef þetta er ekki klósettpappír þá á það ekki heima í klósettinu. Ekki sturta því niður. Settu það í poka og hentu í ruslið,“ sagði Duncan.

Íbúar og skolphreinsunarfyirtæki í Ástralíu ættu þó að geta andað léttar von bráðar því að  stærstu verslunarkeðjur Ástralíu hafa tilkynnt það að brátt eigi að verða auðveldara að nálgast klósettpappír í verslunum. Eftirspurnin hafi minnkað og takmarkanir verið settar á það hversu mikið hver og einn getur keypt.

.

Fleira áhugavert: