Hyllir undir hitaveitu á Hornafirði

pressan

hoffell

Nú hyllir undir hitaveitu á Hornafirði. Nýverið lauk borun á  þriðju djúpu rannsóknarholunni á Hoffelli í 1084 metrum. Við mælingar í borlok kom í ljós að í holunni voru vatnsæðar á 800, 840 og 1.020 m dýpi og við afkastaprófun með tækjum jarðborsins voru afköst til skemmri tíma um 40 l/sek.
Frá 5. maí hefur holan verið í stöðugri prufudælingu þar sem dælt hefur verið úr henni 35 l/sek og vatnshiti  er um 75 gráður. Vatnsborð í holunni hefur farið hægt lækkandi  með þessari dælingu og er nú á 150 m dýpi.
Nú dregur úr þessari lækkun og allar líkur á að holan anni þessari dælingu ti lengri tíma. Áfram verður dælt úr holunni næst hálfan mánuðinn til að afla frekari gagna. Jafnframt er nú verið að bora fimm grunnar holur til að  staðsetja næstu djúpu holu með meiri nákvæmni.
Hitaveita á Hornafirði
Það er á vegum RARIK sem leitað er jarðhita við Hoffell, en borun á nýjustu rannsóknarholunni hófst í febrúar síðastliðnum. RARIK greinir frá því að borað hafi verið niður undir 1.100 metra dýpi og er hiti í botni holunnar rúmar 80 gráður. Þegar komið var niður fyrir 850 metra fundust æðar sem flest bendir til að gefi nokkurt vatnsmagn, en það kemur ekki í ljós fyrr en borun er lokið og búið er að mæla holuna. Reiknað er með að hætta borun fljótlega og hefja mælingar. Endanleg afkastageta holunnar verður ekki ljós fyrr en eftir blástursmælingar sem fram fara á næstu dögum og prufudælingu úr holunni, sem taka mun nokkrar vikur.
Vonast er til að á svæðinu finnist nægjanlegt heitt vatn til að anna húshitunarþörf á Höfn í Hornafirði, eins og áður sagði.
Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, var varkár í orðum spurður um þýðingu þessara niðurstaðna í samtali við Vísi fyrir nokkru. Verkið sé á ábyrgð RARIK, en í síðustu viðræðum sveitarfélagsins við fyrirtækið hefði ekki verið ljóst hverju hitaveita myndi skila í hagræðingu fyrir heimilin í sveitarfélaginu.
„En við reiknum með að það verði umtalsvert til lengri tíma litið. Heitt vatn hefur alls staðar verið talið mikil gæði og svo er einnig hér,“ segir Björn Ingi, sem hefur ekki rætt nýjustu niðurstöður rannsóknarborana við Hoffell við RARIK eða hvernig hlutirnir eru að þróast þessa dagana.

Fleira áhugavert: