Auðlindasjóður Alaska

visir

September 2013

Guðmundur Örn Jónsson

Guðmundur Örn Jónsson

Fyrir rúmlega 30 árum breyttu íbúar Alaska stjórnarskrá sinni, stofnuðu auðlindasjóð og skilgreindu allt óbyggt land sem sameign allra íbúa ríkisins. Eftir það fór arður af nýtingu auðlinda á hinu óbyggða landi í sjóðinn en úr sjóðnum fær svo hver íbúi ríkisins árlega greiðslu. Jafngildir sú greiðsla því að hver fjögurra manna fjölskylda fái í hverjum mánuði um 40 þúsund krónur og hefði frá stofnun sjóðsins fengið 16 milljónir króna.

Sjóðurinn er gífurlega vinsæll í Alaska og fyrir rúmum áratug, þegar stjórnmálamenn vildu fá heimild til að eyða fjármunum úr honum, voru 84% kjósenda því mótfallin.

Sjóðurinn hefur minnkað ójöfnuð í Alaska mikið. Þrátt fyrir að meðaltekjur þar séu rétt í meðallagi meðal hinna fimmtíu ríkja Bandaríkjanna er fátækt þar næstminnst af öllum ríkjunum og er það rakið til greiðslna úr sjóðnum sem allir íbúar njóta til jafns. Það kemur því á óvart að repúblikanar, systurflokkur sjálfstæðisflokksins í Bandaríkjunum, hafi stýrt ríkinu frá því að auðlindasjóðurinn var stofnaður.

alaskaÞrátt fyrir að yfir 80% Íslendinga vilji tryggja þjóðareign á náttúruauðlindum á sambærilegan hátt og íbúar Alaska hafa þeir flokkar sem fylgt hafa þeirri stefnu notið dræms fylgis. Líklegast má rekja það til þess að þeir vildu taka auðlindaarðinn beint eða óbeint í ríkissjóð.

Íslendingar hafa slæma reynslu af opinberum sjóðum. Þeir hafa átt það til að tapa eigum sínum eins og t.d. Íbúðalánasjóður, eða bestu eigur þeirra hafa farið í vasa stjórnenda þeirra, eins og þegar forstjóri Þróunarfélagsins „seldi“ sjálfum sér Kögun. Það er því ekki að undra að landsmenn sjái lítinn mun á því hvort arðurinn rennur til einhverrar forréttindastéttar eða sé misnotaður af stjórnmálamönnum.

Fleira áhugavert: