Þeir eru varðmenn valda- og auðmannastéttar í íslensku samfélagi

pressan

Vilhjálmur Birgisson

Vilhjálmur Birgisson

Það er óhætt að segja að í Tíund sem er fréttablað ríkisskattstjóra séu gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir íslenskt launafólk, en í samantekt kemur fram að íslensk fyrirtæki greiddu eigendum sínum 215 milljarða í arð á árinu 2014. Á sama tíma hækkuðu launagreiðslur fyrirtækjanna til launafólks um einungis 35 milljarða.

Hugsið ykkur, Seðlabankinn, Samtök atvinnulífsins, já og jafnvel ASÍ hafa mestar áhyggjur af því að beisla þurfi launahækkanir launafólks með nýju vinnumarkaðslíkani og nauðsynlegt sé að stofna nýtt þjóðhagsráð sem ákvarði hámarkslaunabreytingar til handa launafólki.

Hugsið ykkur líka að fulltrúar Seðlabankans sögðu eftir síðustu kjarasamninga að hækka þyrfti stýrivexti til að draga úr ráðstöfunartekjum launafólks. Já Seðlabankinn hafði gríðarlegar áhyggjur af 35 milljarða aukningu launatekna hjá almennu launafólki en hafði ekki neinar áhyggjur af 215 milljarða aukningu á arðgreiðslum íslenskra fyrirtækja.

Það er orðið morgunljóst að fulltrúar Seðlabankans og annarra sem tengjast svokölluðu Sakel samkomulagi eru varðmenn valda- og auðmannastéttar í íslensku samfélagi, allt á kostnað almenns launafólks.

audmennÞað er algjörlega magnað að ofangreindir aðilar hafi ætíð langmestar áhyggjur af launahækkunum á hinum almenna vinnumarkaði og tala í því samhengi um óðaverðbólgu, hátt vaxtastig og aðra slíka óáran sem launahækkunum fylgir. En síðan liggur fyrir að arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja eru 6 sinnum hærri heldur en launahækkanir námu á árinu 2014 hjá íslensku launafólki, eða sem nemur 600%.

Já, nú ætla þessir snillingar að koma á nýju vinnumarkaðslíkani til að beisla hér launahækkanir og takmarka samningsfrelsi launafólks og stéttarfélaga í skjóli þess að launahækkanir valdi hér aukinni verðbólgu. Ég vil fá skýrt svar við því hvernig það má vera að fyrirtæki geti greitt 215 milljarða í arðgreiðslur án þess að það hafi nein áhrif á aukna verðbólgu. En 35 milljarða aukinn launakostnaður á að setja samfélagið allt nánast á hliðina en ekki 215 milljarða arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja?

Ef að aðilum Salek-samkomulagsins tekst að koma á nýju vinnumarkaðslíkani, þá mun íslenskt launafólk bera minna úr býtum, misskipting mun aukast og arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja munu stóraukast í kjölfarið. Að ASÍ skuli taka þátt í þessu verkefni, og reyndar vera fremstir í flokki fyrir því að skerða samningsrétt launafólks, er með ólíkindum í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að arðgreiðslur nemi 215 milljörðum á ári á meðan launakostnaður hækkar um 35 milljarða á ári.

 

Heimild: Pressan

Fleira áhugavert: