Norsk ríkisfyrirtæki nota risavaxinn breskan ríkisstyrk til að reisa vindmyllugarð á Norfolk Bretlandi
03. JÚLÍ 2014
Vindmyllunum, sem norsku ríkisfyrirtækin Statoil og Statkraft hafa ákveðið að reisa undan ströndum Norfolk í Bretlandi, er tryggður risavaxinn ríkisstyrkur. Vindmyllugarðurinn verður fyrsta verkefnið sem fær stuðning í gegnum nýtt styrkjakerfi sem bresk stjórnvöld hafa komið á fót til að ýta undir notkun endurnýjanlegra orkugjafa.
Í frétt norska Aftenposten kemur fram að breska ríkið tryggir Statoil og Statkraft ákveðið lágmarksverð fyrir orkuna í 15 ár, sem svarar 27 krónum íslenskum fyrir kílóvattstund í heildsölu. Það verð er í dag um það bil þrefalt hærra en markaðsverð fyrir raforku í Bretlandi og sjö- til áttfalt hærra en það verð sem fyrirtækin gætu búist við að fá fyrir raforkuna ef þau seldu hana til Skandinavíu. Mismuninn á markaðsverði og lágmarksverðinu greiðir breska ríkið.
Stavanger Aftenblad, sem einnig fjallar um málið, segir að breska ríkið tryggi norsku vindmyllunum þannig tekjur á næstu fimmtán árum sem svarar 730 milljörðum íslenskra króna. Heildarfjárfestingin er talin nema 270 milljörðum króna.
Sama styrkjakerfi er talið geta tryggt umtalsverðan hagnað af raforkusölu frá Íslandi til Bretlandseyja um sæstreng.
Norsku ríkisfyrirtækin Statoil og Statkraft hafa ákveðið að reisa 67 vindmyllur úti fyrir ströndum Norfolk í Bretlandi. Heildarfjárfestingin nemur um 270 milljörðum íslenskra króna. Þar af verður hlutur Statoil um 100 milljarðar króna, eða 35 prósent, og hlutur Statkraft um 80 milljarðar króna, eða 30 prósent. Einkaaðilar verða með 35 prósent.
Vindmyllunum, sem verða 32 kílómetra frá landi á svokölluðu Dudgeon-svæði, er ætlað að framleiða orku sem nægir 410 þúsund breskum heimilum. Hver vindmylla verður sex megavött og uppsett afl því alls 402 megavött. Til samanburðar má geta þess að afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 megavött.
Uppsetning vindmyllanna á að hefjast árið 2016 og eiga þær að verða komnar í fullan rekstur fyrir árslok 2017. Statoil, sem leiðir verkefnið, segir í yfirlýsingu að fjárfestingin sé í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins að hasla sér völl í endurnýjanlegum orkugjöfum í áföngum. Verkefnið muni styrkja stöðu Statoil í Bretlandi.
Norsku ríkisfyrirtækin höfðu áður látið reisa 88 vindmyllur á Sheringaham-svæðinu á svipuðum slóðum en nær landi upp á samtals 317 megavött.
Heimild: Vísir