Nasa – Endurbyggt í upprunalegri mynd
„Við teljum mikilvægt að Nasa verði áfram skemmtilegasti tónlistarsalur landsins. Hugmyndin er að endurbyggja salinn í upprunalegri mynd og eru arkitektarnir að vinna út frá myndum sem teknar voru þegar salurinn var opnaður um miðja síðustu öld,“ segir Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf. sem á Landssímareitinn og Nasa. Lindarvatn er í helmingseigu Icelandair Group og Dalsness ehf. Félagið hefur að höfðu samráði við Minjastofnun og Reykjavíkurborg ákveðið að endurbyggja Nasa við Austurvöll í upprunalegri mynd og eru framkvæmdir við það að hefjast.
Félagið mun eiga salinn en leigja hann út þegar framkvæmdum er lokið. „Við erum að klára hönnunina þar sem við viljum sjálf stjórna því hvernig hann verður hannaður. Þegar hönnuninni lýkur hugum við svo að því að fá aðila til að leigja salinn af okkur,“ segir Davíð og bætir við að þótt salurinn verði endurbyggður í upprunalegri mynd verður hann mun nútímalegri þegar kemur að hljóðhönnun.
Davíð segir að fremra húsið, hús gamla kvennaskólans, verði lagað og að þar sé fyrirhugað að koma fyrir veitingastað. „Þetta eru í raun tvö hús. Framhliðin er alfriðað timburhús. Það verður bara lagað en salurinn fyrir aftan verður endurbyggður með áðurnefndum hætti.“
Heimild: Mbl