Telitað vatn úr kalda krananum

mbl

 

Október 2007

neyslvatn ryd

Skömmu fyrir síðustu aldamót, eða fyrir svona áratug, fór að bera á hvimleiðum hlut í nýjum eða nýlegum húsum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar heimilisfólk kom á fætur árla dags og ætlaði að fá sér silfurtært kalt vatn úr krana var það stundum hvorki tært né kalt. Fyrsta bunan var stundum eins og að veikt te væri að renna í glasið. Því miður eiga margir við þetta hvimleiða vandamál að stríða enn í dag og til að bæta úr því hefur verið gripið til ýmissa ráða. Kristalstæki sett á inntakið eða vatnsbætir frá Ísrael, ýmsir telja að þetta hafi verið til bóta þó ekki leysi það vandamálið til fulls. Oft hefur þrautalendingin verið sú að gleyma lögnunum sem gefa telitinn og leggja nýjar utanáliggjandi lagnir, nokkuð sem ekki hefði mátt minnast á hérlendis fyrir nokkrum áratugum.

Eitt er víst; fjölmargir húseigendur búa við þetta hvimleiða vandamál, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur víðsvegar um land.

En hvað veldur, af hverju er þetta svona?

Þar sem þetta vandamál er í húsum má ganga að því vísu að lagnirnar séu úr galvaniseruðum stálpípum, lagnaefni sem hefur verið notað frá því byrjað var að leggja rör í hús hérlendis fyrir meira en hundrað árum. Hins vegar bregður svo einkennilega við að vandamálið er nær óþekkt í eldri eða gömlum húsum með gömlum galvaniseruðum lögnum. Þetta er í húsum með þannig lögnum sem hafa verið byggð á sl. tuttugu árum.

En af hverju í yngri húsum en ekki þeim eldri?

neyslvatn ryd aEngin ein kenning hefur verið viðurkennd en þó er ekki ólíklegt að einkum þrennt sé orsökin. Í fyrsta lagi breyting á vatni sem fæst nú úr dýpri borholum, í öðru lagi breyttar lagnaleiðir, í þriðja lagi breyttir þjóðfélagshættir.

Áður fyrr var vatn í Reykjavík tekið úr Gvendarbrunnum en síðan var borað eftir vatni og þar fékkst betra drykkjarvatn en líklega skaðlegra fyrir rörin. Lagnaleiðir eru meira í einangrun og veggjum og þar nær vatnið að hitna meira vegna breyttra þjóðfélagshátta. Vatnið hreyfist víða ekki í lögnunum nema kvölds og morgna, það er enginn heima, allir að vinna eða í skóla.

Ekki er víst að allir taki þessari skilgreiningu sem stóra sannleika enda ekki til þess ætlast. Staðreyndin er hins vegar sú að galvaniseruð kaldavatnsrör í húsum byggðum á sl. tuttugu árum eða svo eru víða skemmd og gefa telitað vatn. Ekki beint geðslegt því þessi litur stafar af ryði og í þessu vatni er nokkuð af uppleystu zinki.

En það er hægt að hreinsa rörin, það eru til efni sem geta hreinsað allan hroðann úr rörunum. Gallinn er hins vegar sá að eftir hreinsun er stálið berskjaldað fyrir súrefnisríka vatninu og sama hringrás hefst, tæringin heldur áfram og ryðlitur kemur fljótlega á drykkjarvatnið.

Það er til lausn sem gerir kleift að hreinsa rörin og gera þau sem ný, en því miður er þessi lausn ekki aðgengileg hérlendis ennþá, en ætti svo sannarlega að vera það.

Í Bandaríkjunum er fyrirtæki sem ber nafnið American Pipe Lining Inc. og er með höfuðstöðvar í borginni San Diego og útibú vítt og breytt um þetta víðlenda ríki. Þetta fyrirtæki hefur þróað aðferð til að gera við skemmdar vatnslagnir þannig að óþarfi er að leggja nýjar.

Í fyrstu eru pípurnar hreinsaðar að innan bæði með efnum og blæstri, þar á

eftir eru þær þurrkaðar og þá kemur að endanlegri viðgerð. Inn í rörin er blásið epoxy-efni sem er viðurkennt til húðunar í matvælaiðnaði. Eftir það er lakkið látið þorna og herðast, síðan er vatninu hleypt á kerfið. Eftir það eru pípurnar lausar við öll óhreinindi og eru sléttar að innan og flytja þess vegna meira vatnsmagn en áður og þær skila vatninu jafn silfurtæru úr krananum og það var þegar það kom inn í húsið.

Þá er aðeins að sjá til hvort einhver framtakssamur einstaklingur eða fyrirtæki vill taka þessa tækni upp á sína arma og bjarga fjölmörgum heimilum frá því að láta daginn byrja á því að láta kalda vatnið renna í langan tíma áður en nokkur vogar sér að drekka það eða nota til matreiðslu.

En kannski eru til aðilar hér innanlands sem geta leyst þetta án nokkurrar utanaðkomandi hjálpar.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: