ÞG Verk kaupir hluta í Hafnartorgi
ÞG Verk hefur gengið frá kaupum á hluta Reykjavík development (áður Landstólpi þróunarfélag ehf.) í þróunarverkefni þeirra að Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Kaupverðið er trúnaðarmál.
„Með þessum kaupum færist verkefnið úr þróunarfélagi yfir til framkvæmdaraðila sem hefur burði til að keyra verkefni af slíkri stærðargráðu áfram og standast tímaáætlun. Hafnartorg er afar krefjandi verkefni sem vinna þarf við þröngar aðstæður. ÞG Verk mun kappkosta að vinna verkefnið í sátt við umhverfið þannig að sem minnst rask og ónæði verði af verkinu. Áætlanir gera ráð fyrir að Hafnartorgið verði tilbúið 2018 -2019 en ÞG Verk leggur áherslu á að klára verkið 2018,” segir Davíð M. Sigurðsson, markaðsstjóri ÞG Verk, í tilkynningu.
Þá segir, að hönnun á verkefninu sé mjög metnaðarfull og taki mið að nærliggjandi umhverfi til að styðja við heildarmynd svæðisins.
Hafnatorg er sambland af verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og glæsilegum íbúðum á efri hæðum fimm húsa af þeim sjö sem byggð verða. Heildarflatarmál fermetra ofan jarðar eru 23.350 en við það bætist bílastæðahús sem tengir sig alla leið undir núverandi bílastæðahús Hörpunnar. Reginn hefur þegar fest kaup á öllum 8.000 m² sem munu hýsa verslanir af ýmsum toga. ÞG Verk mun nýta næstu vikur til að koma sér inn í verkefnið en engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi breytingar frá núverandi skipulagi.
Heimild: Mbl