Meng­un tal­in ógna heilsu meira en 200 millj­óna manna

mbl

Nóvember 2013

bly

Talið er að eit­ur­efna­meng­un ógni heilsu meira en 200 millj­óna manna í heim­in­um, ef marka má nýja skýrslu tveggja um­hverf­is­vernd­ar­stofn­ana sem birtu lista yfir menguðustu staði í heim­in­um. Á meðal þeirra er svæði í Gana þar sem notuð raf­einda­tæki frá Evr­ópu eru end­urunn­in.

„Við áætl­um að heilsu meira en 200 millj­óna manna stafi hætta af meng­un í þró­un­ar­lönd­um,“ sagði Rich­ard Fuller, for­stöðumaður um­hverf­is­vernd­ar­stofn­un­ar­inn­ar Blacksmith Institu­te í Banda­ríkj­un­um.

Blacksmith-stofn­un­in og Græni kross­inn í Svisslandi hafa birt nýj­an lista yfir tíu menguðustu staði í heim­in­um og hann er sá fyrsti sem stofn­an­irn­ar tvær gefa út frá ár­inu 2007. List­inn bygg­ist á rúm­lega 2.000 skýrsl­um um hættu sem staf­ar af eit­ur­efn­um á menguðum svæðum í 49 lönd­um.

Á meðal staða sem eru nú í fyrsta skipti á list­an­um er Ag­bog­b­los­hie í Gana þar sem notuð raf­einda­tæki eru end­urunn­in. Ag­bog­b­los­hie er í grennd við Accra, höfuðborg Gana.

Ár hvert eru um 215.000 tonn af notuðum raf­einda­tækj­um flutt inn til Gana, aðallega frá Vest­ur-Evr­ópu. Áætlað er að inn­flutn­ing­ur­inn tvö­fald­ist inn­an sjö ára.

Heilsu íbú­anna í grennd við end­ur­vinnslu­stöðvarn­ar staf­ar einkum hætta af brennslu slíðurkapla til að end­ur­vinna kop­ar. Skýrslu­höf­und­arn­ir benda á að ýms­ir þung­málm­ar, meðal ann­ars blý, geta verið í köpl­un­um. Rann­sókn­ir á sýn­um úr jarðvegi í grennd við end­ur­vinnslu­stöðvarn­ar leiddu í ljós að blý­magnið í þeim var 45 sinn­um meira en viðun­andi get­ur tal­ist sam­kvæmt regl­um um meng­un­ar­varn­ir.

„Raf­tækja­úr­gang­ur verður sér­lega erfitt úr­lausn­ar­efni. Hann marg­fald­ast. All­ir vilja borðtölvu, far­tölvu, nýj­ustu græj­ur, þannig að ég tel að við sjá­um aðeins topp­inn á ís­jak­an­um,“ sagði Jack Cara­vanos, sem stjórn­ar rann­sókn­um Blacksmith-stofn­un­ar­inn­ar.

 

mengunDrekka vatn blandað blýi

Á meðal annarra staða sem eru nú í fyrsta skipti á list­an­um er vatna­svæði ár­inn­ar Cit­ar­um á Vest­ur-Jövu í Indó­nes­íu. Á svæðinu búa um níu millj­ón­ir manna en þar eru einnig um það bil 2.000 verk­smiðjur.

Áin sér íbú­un­um fyr­ir drykkjar­vatni og hrís­grjóna­bú­um fyr­ir áveitu­vatni, en í henni hef­ur fund­ist mikið magn af áli, mang­an og fleiri efn­um. Rann­sókn­ir á drykkjar­vatn­inu úr ánni hafa leitt í ljós að blý­magnið er meira en þúsund sinn­um meira en viðun­andi get­ur tal­ist sam­kvæmt banda­rísk­um meng­un­ar­varn­a­regl­um.

Öðru svæði í Indó­nes­íu, Kalim­ant­an á Borneó-eyju, var bætt á list­ann vegna meng­un­ar sem rak­in er til gull­graft­ar. Marg­ir gull­grafar­ar á svæðinu nota kvikasilf­ur til að vinna gull úr bergi og kvikasilf­ursmeng­un­in í heim­in­um er að miklu leyti rak­in til þeirra, að sögn skýrslu­höf­und­anna.

Á list­an­um er einnig Haz­ari­bagh, borg í Bangla­dess þar sem flest­ar af 270 sút­un­ar­stöðvum lands­ins eru rekn­ar. Dag hvern dæla sút­un­ar­stöðvarn­ar í borg­inni um 22.000 lítr­um af úr­gangi í Buriganga, stærstu á Dhaka, höfuðborg­ar lands­ins. Vatn úr ánni er notað til drykkj­ar þótt í því hafi fund­ist hættu­leg efni, meðal ann­ars efni sem geta valdið krabba­meini.

Óseyri Níg­er­ár í Níg­er­íu og vatna­svæði ár­inn­ar Mat­anza-Riachu­elo var einnig bætt á list­ann.

Tvö iðnaðarsvæði í Rússlandi, Tsjerno­byl í Úkraínu og blý­námu­borg­in Kabwe í Sam­b­íu, eru tal­in á meðal tíu menguðustu staða heims­ins og voru einnig á list­an­um árið 2007. Nokkr­ir staðir í Kína og á Indlandi voru þá á list­an­um en eru þar ekki leng­ur vegna hreins­un­ar­starfs sem hef­ur borið til­tölu­lega góðan ár­ang­ur, að sögn skýrslu­höf­und­anna.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: