Mengun talin ógna heilsu meira en 200 milljóna manna
Nóvember 2013
Talið er að eiturefnamengun ógni heilsu meira en 200 milljóna manna í heiminum, ef marka má nýja skýrslu tveggja umhverfisverndarstofnana sem birtu lista yfir menguðustu staði í heiminum. Á meðal þeirra er svæði í Gana þar sem notuð rafeindatæki frá Evrópu eru endurunnin.
„Við áætlum að heilsu meira en 200 milljóna manna stafi hætta af mengun í þróunarlöndum,“ sagði Richard Fuller, forstöðumaður umhverfisverndarstofnunarinnar Blacksmith Institute í Bandaríkjunum.
Blacksmith-stofnunin og Græni krossinn í Svisslandi hafa birt nýjan lista yfir tíu menguðustu staði í heiminum og hann er sá fyrsti sem stofnanirnar tvær gefa út frá árinu 2007. Listinn byggist á rúmlega 2.000 skýrslum um hættu sem stafar af eiturefnum á menguðum svæðum í 49 löndum.
Á meðal staða sem eru nú í fyrsta skipti á listanum er Agbogbloshie í Gana þar sem notuð rafeindatæki eru endurunnin. Agbogbloshie er í grennd við Accra, höfuðborg Gana.
Ár hvert eru um 215.000 tonn af notuðum rafeindatækjum flutt inn til Gana, aðallega frá Vestur-Evrópu. Áætlað er að innflutningurinn tvöfaldist innan sjö ára.
Heilsu íbúanna í grennd við endurvinnslustöðvarnar stafar einkum hætta af brennslu slíðurkapla til að endurvinna kopar. Skýrsluhöfundarnir benda á að ýmsir þungmálmar, meðal annars blý, geta verið í köplunum. Rannsóknir á sýnum úr jarðvegi í grennd við endurvinnslustöðvarnar leiddu í ljós að blýmagnið í þeim var 45 sinnum meira en viðunandi getur talist samkvæmt reglum um mengunarvarnir.
„Raftækjaúrgangur verður sérlega erfitt úrlausnarefni. Hann margfaldast. Allir vilja borðtölvu, fartölvu, nýjustu græjur, þannig að ég tel að við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum,“ sagði Jack Caravanos, sem stjórnar rannsóknum Blacksmith-stofnunarinnar.
Á meðal annarra staða sem eru nú í fyrsta skipti á listanum er vatnasvæði árinnar Citarum á Vestur-Jövu í Indónesíu. Á svæðinu búa um níu milljónir manna en þar eru einnig um það bil 2.000 verksmiðjur.
Áin sér íbúunum fyrir drykkjarvatni og hrísgrjónabúum fyrir áveituvatni, en í henni hefur fundist mikið magn af áli, mangan og fleiri efnum. Rannsóknir á drykkjarvatninu úr ánni hafa leitt í ljós að blýmagnið er meira en þúsund sinnum meira en viðunandi getur talist samkvæmt bandarískum mengunarvarnareglum.
Öðru svæði í Indónesíu, Kalimantan á Borneó-eyju, var bætt á listann vegna mengunar sem rakin er til gullgraftar. Margir gullgrafarar á svæðinu nota kvikasilfur til að vinna gull úr bergi og kvikasilfursmengunin í heiminum er að miklu leyti rakin til þeirra, að sögn skýrsluhöfundanna.
Á listanum er einnig Hazaribagh, borg í Bangladess þar sem flestar af 270 sútunarstöðvum landsins eru reknar. Dag hvern dæla sútunarstöðvarnar í borginni um 22.000 lítrum af úrgangi í Buriganga, stærstu á Dhaka, höfuðborgar landsins. Vatn úr ánni er notað til drykkjar þótt í því hafi fundist hættuleg efni, meðal annars efni sem geta valdið krabbameini.
Óseyri Nígerár í Nígeríu og vatnasvæði árinnar Matanza-Riachuelo var einnig bætt á listann.
Tvö iðnaðarsvæði í Rússlandi, Tsjernobyl í Úkraínu og blýnámuborgin Kabwe í Sambíu, eru talin á meðal tíu menguðustu staða heimsins og voru einnig á listanum árið 2007. Nokkrir staðir í Kína og á Indlandi voru þá á listanum en eru þar ekki lengur vegna hreinsunarstarfs sem hefur borið tiltölulega góðan árangur, að sögn skýrsluhöfundanna.
Heimild: Mbl