Hvernig lætur þú klósettrúlluna snúa ?
Það getur sagt ýmislegt um persónuleika fólks hvernig það lætur klósettrúlluna snúa á standinum. Hljómar ótrúlega en samt sem áður heldur sérfræðingur nokkur því fram að það sé hægt að lesa í persónuleika fólks út frá því hvort það láti endann á klósettrúllunni snúa að veggnum eða frá honum.
Flestir hafa heyrt að það sé hægt að lesa í persónuleika fólks með því að skoða líkamstjáningu þess, raddbeitingu og hvernig samskiptum við annað fólk er háttað. En doktor Gilda Carle, sem er sérfræðingur í samböndum fólks og samskiptum, segist hafa fundið upp próf sem byggist á klósettpappírsvenjum fólks og geti sagt til um lykilatriði er varða persónuleika fólks.
Í samtali við indy100 skýrði hún þetta próf sitt og sagði að þeir sem setja klósettrúlluna þannig á standinn að endinn á henni snúi fram, frá veggnum, séu mjög ráðandi persónuleikar.
Þeir sem láta endann snúa að veggnum eru undirgefnari persónuleikar að sögn Carle. Hún sagðist hafa búið þetta persónuleikapróf til svo að fólk geti sjálft lagt mat á hegðun sem er stýrt af undirmeðvitundinni.
Hún sagðist hafa notað prófið á 2.000 manns á aldrinum 18 til 75 ára og að niðurstöðurnar hafi sýnt að kenning hennar um klósettrúlluprófið standist og sé vel nothæf.
En telur þú að þetta geti verið rétt hjá henni? Að það sé virkilega hægt að segja til um persónuleika fólks út frá því hvernig það setur klósettrúllu á standinn?
Heimild: Pressan