Græn orka aldrei vaxið meira
Framleiðslugeta heimsbyggðarinnar á endurnýjanlegri orku jókst um 8,3% á síðasta ári samkvæmt skýrslu Alþjóðlegu endurnýjanlegu orkustofnunarinnar. Nú er hægt að framleiða 1.985 gígavött af orku með umhverfisvænum hætti.
Vind- og sólarorka er helsta ástæða þess að framleiðslugetan jókst um 152 gígavött á síðasta ári samkvæmt stofnuninni en kostnaður við beislun þeirra hefur farið fallandi. Vöxturinn er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að verð á olíu og gasi hefur verið lágt undanfarin misseri.
Adnan Amin, forstöðumaður stofnunarinnar segir að vöxturinn og metfjárfestingar upp á 286 milljarða dollara í endurnýjanlegum orkugjöfum í fyrra sendi sterk skilaboð til fjárfesta og stjórnmálamanna um að þeir séu ákjósanlegasti valkosturinn fyrir orkuframleiðslu heimsbyggðarinnar.
Vöxturinn hefur verið hraðastur í þróunarlöndum, fyrst og fremst í Mið-Ameríku og í Karíbahafi. Þar nam aukningin 14,5%. Í Asíu jókst orkuframleiðslugetan um 12,4%. Í Norður-Ameríku og Evrópu var vöxturinn aðeins 6,3% og 5,2% í hvorri álfu fyrir sig.
Heimild: Mbl