Á landgrunni Íslands – Jarðolíu eða jarðgasleit á Drekasvæðinu
Júní 2013
Úrdráttur úr erindi Dr. Guðna A. Jóhannessonar forstjóra Orkustofnunar, flutt á aðalfundi Lagnafélags Íslands 2013
Á landgrunni Íslands eru tvö svæði þar sem talið er mögulegt að finna jarðolíu eða jarðgas í nýtanlegu magni. Þetta eru Drekasvæðið austur og norðaustur af landinu og Gammsvæðið úti fyrir Norðurlandi. Íslenska ríkið er eigandi kolvetnis í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands.
Um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Noregs gildir samkomulag við Noreg frá 1981 um útfærslu á gagnkvæmri hlutdeild í leyfum á samningssvæðinu við Jan Mayen hrygg. Orkustofnun veitir leyfi til leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis.
Drekasvæðið nær m.a. yfir suðurenda Jan Mayen hryggjarins sem er meginlandsfleki. Háskólastofnanir hafa staðið að töluverðum rannsóknum á Jan Mayen hryggnum, en einnig hafa íslensk og norsk stjórnvöld staðið að sameiginlegum mælingum á svæðinu ásamt því að einkaaðilar hafa staðið að rannsóknum á svæðinu.
Fyrirliggjandi gögn benda til þess að um sé að ræða þykkt lag af meginlandsbergi á svæðinu, og að í jarðlagastaflanum sé mögulega að finna móðurberg frá af Júra- og/eða Krítartímabilunum. Lengi hefur verið vitað um olíumöguleika á Drekasvæðinu, m.a. vegna jarðfræðilegs skyldleika svæðisins við setlagatrog á Austur-Grænlandi, landgrunn Vestur-Noregs og landgrunn Færeyja og Hjaltlands. Vitað er að olía hefur myndast á Austur-Grænlandi og á hinum svæðunum hefur hún þegar fundist í vinnanlegu magni. Þann 4 janúar 2013 undirrritaði orkumálastjóri, að viðstöddum olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe og Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, tvö sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu.
Petoro Iceland AS, útibú á Íslandi, er leyfishafi í báðum leyfunum fyrir hönd norska ríkisins, samkvæmt ákvörðun norska stórþingsins frá 18. desember sl., til samræmis við samning milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen og bókun við áðurnefndan samning frá nóvember 2008.
Annað leyfið er til Faroe Petroleum Norge AS sem rekstraraðila með 67,5 % hlut, Íslensks Kolvetnis ehf. með 7,5 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut. Hitt leyfið er til Valiant Petroleum ehf. sem rekstraraðila með 56,25 % hlut, Kolvetnis ehf. með 18,75 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut.
Leyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis eru veitt til allt að 12 ára en heimilt er að framlengja það til allt að tveggja ára í senn. Hámarksgildistími leyfis til rannsókna skal þó ekki vera lengri en 16 ár. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum, á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár.
Lög frá 2001 kveða á um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis utan netlaga í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Auk áðurnefndra laga og reglugerða, er kolvetnisstarfsemi undirorpin annarri innlendri löggjöf s.s. varðandi skattlagningu og umhverfis- og vinnuvernd.
Sérstök skattlagning byggir á lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu, sem kemur til viðbótar við hinn almenna fyrirtækjaskatt, sem er 20% á Íslandi. Ef olía finnst í nýtanlegu magni á svæðinu geta skatttekjur ríkisins af olíuvinnslu numið hundruðum milljarða króna á ári.
Orkustofnun annast eftirlit með starfsemi tengdri leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis og varðveislu á gögnum sem safnast við slíka starfsemi. Í samræmi við lög nr. 13/2001 starfrækir og leiðir Orkustofnun samráðshóp eftirlitsaðila vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland.
Í samráðshópnum skulu sitja 11 fulltrúar skipaðir af Brunamálastofnun, Flugmálastjórn Íslands, Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins. Hlutverk samráðshópsins skal m.a. vera að tryggja upplýsingaskipti og samræma opinbert eftirlit vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland.
Heimild: LAFÍ