Sundlaugar höfuðborgarsvæðinu – Aðeins 7 af 17 með sérklefa fyrir fatlað fólk !
Aðeins sjö almenningssundlaugar af 17 á höfuðborgarsvæðinu eru búnar sérstökum klefum fyrir fatlað fólk sem þarf á aðstoð að halda við sundferðir.
Í tveimur laugum er engin slík aðstaða, þ.e. Klébergslaug á Kjalarnesi og í Sundhöllinni í Reykjavík. Í fjórum sundlaugum eru gufubaðsklefar nýttir fyrir fatlaða þegar þörf krefur og í Salalaug í Kópavogi þjónar sjúkraherbergi þessu hlutverki. Í Álftaneslaug og Ásgarðslaug í Garðabæ þarf að fara í gegnum karla- og kvennaklefa til að nálgast klefa fyrir fatlaða.
Sérklefar innihalda mikilvæg hjálpartæki og eru með góðu hjólastólaaðgengi. Þeir eru ekki síst mikilvægir fyrir fólk sem nýtur aðstoðar einstaklinga af öðru kyni. Þar að auki koma sérklefar í góðar þarfir fyrir transfólk eða aðra sem upplifa sig utan tvíhyggju kynjaskiptra klefa og gætu átt á hættu að verða fyrir aðkasti í karla- eða kvennaklefum.
Erfitt að laga í eldri mannvirkjum
Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR segir ýmislegt standa til bóta í þessum málum hvað sundlaugar Reykjavíkur varðar þó raunar komi upp skiptar skoðanir um hvernig best væri að þeim staðið.
„Þegar maður talar við þá sem eru mest að nota þessa aðstöðu fær maður stundum að heyra hvort það sé ekki nær að hafa færri staði fullkomna en að reyna að gera lítið allsstaðar.“
Hann segir að mikill fjöldi fatlaðra einstaklinga nýti sér þjónustu sundlauganna, þar á meðal stór hópur íþróttafólks sem æfir og keppir í sundi. Segir hann Íslendinga hafa fengið mikið hrós fyrir aðstöðuna í Laugardalslaug þegar Evrópumót fatlaðra í sundi fór fram hér á landi árið 2009. Segir hann aðstöðuna mjög góða í innilauginni en ekki eins góða í útilauginni sem var byggð árið 1968. Verið sé að velja lyftur í útilaugina sem komi vonandi mjög fljótlega.
„Það verður rosalega erfitt að gera allt eins og best væri á kosið í mannvirkjum á borð við Vesturbæjarlaug,“ segir Steinþór. „Þar eru lyftur og nýji potturinn var byggður upp þannig að fatlaðir geti komið að honum í hjólastól og komist í hann en annað er rosalega erfitt, það þyrfti að gjörbreyta mannvirkinu. Sama á við um Sundhöllina.“
Eins og fjallað hefur verið um er vinna hafin við byggingu útilaugar við Sundhöllina. Við hana verður byggður nýr kvennaklefi ásamt tveimur sérstökum klefum fyrir hreyfihamlaða auk þess sem settar verða upp lyftur sem gera munu allt aðgengi mun betra að sögn Steinþórs. Þá standa yfir framkvæmdir við Breiðholtslaug þar sem verið er að byggja sérklefa og segir hann það markmiðið að taka ávallt mið af þörfum allra notendahópa.
„Þegar við tókum búningsklefana í Laugardalslauginni í gegn frá grunni höfðum við fulltrúa notenda, með í ráðum ,þ.m.t fatlaðra. Alla aðila sem mögulega komu til með að nota aðstöðuna fengum við í rýnihópa,“ segir Steinþór.
Veigra sér við að fara í sund
Kári Jónsson, íþróttafulltrúi Garðabæjar, segir að þar standi einnig til að reyna að bæta úr aðstöðunni. Báðar sundlaugar bæjarfélagsins Álftaneslaug og Ásgarðslaug eru með kyngreindum klefum og því getur fatlað fólk með aðstoðarfólk af öðru kyni ekki nýtt sér aðstöðuna.
„Ásgarðslaug er frá 1989 og þar hefur alltaf verið aðstaða fyrir fatlað fólk til þess að loka að sér og skipta um föt en ekki sér sturtuklefi. Álftaneslaugin er tiltölulega ný og þar eru sérstakir klefar inni í sitthvorum búningsklefanum þar sem er búningsaðstaða og sturta.“
Kári segir að verið sé að skoða aðgengismál í laugunum og að sérfræðingar frá Gott Aðgengi hafi verið fengnir til að leggja á þau mat. Verið sé að ráðast í lagfæringar á Ásgarðslaug þar sem til standi að gera klefanna betri en ekki sé víst að hægt verði að koma upp ókyngreindum klefa þó það sé í athugun. Hvað Álftaneslaug varðar er verið að reyna að bæta klefana sem fyrir eru og fara yfir teikningar og möguleikann á því að búa til einn ókyngreindan klefa.
Kári segir að bæjarfélagið hafi fengið fyrirspurnir frá fólki á ýmsum stigum kynleiðréttingarferlis sem koma vilji í sund. Slíkir hópar hafi fengið sundlaugina leigða af bænum eftir almennan opnunartíma.
„Það eru brögð á því að fólk í þessu ferli veigri sér við að fara í sund og hafi jafnvel ekki farið í sund í mörg ár. Það eru svo margir mismunandi hópar fólks og þannig erfitt að útbúa laugarnar þannig að þær taki á hverri stundu við hverjum sem er en við eigum möguleika á að sveigja til með því að sveigja opnunartíma eða vera með þessa klefa.“
Hvað aðsókn fatlaðs fólks í laugar Garðabæjar að staðaldri segir Kári að hún gæti verið meiri.
„En við vitum heldur ekki hvort aðstöðuleysið hamlar því að fólk mæti. Ef við getum haft aðstöðuna tilbúna þannig að fólk geti komið eru meiri líkur á að það nýti sér sundlaugarnar.“
Heimild: Mbl