Japanir eru áhugasamir um jarðhitaverkefni
Sendinefnd utanríkismálanefndar, sem nú er stödd í Japan, fundaði í dag með forseta japanska þingsins, auk þess að hitta efnahagsráðherra og aðstoðarutanríkisráðherra landsins. Að sögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, formanns utanríkismálanefndar, hafa fundirnir verið bæði góðir og árangursríkir. „Við höfum síðan einnig átt fundi með þingmönnum, háskólum og fyrirtækjum og aðal umræðuefnið af okkar hálfu hefur verið vilji Íslands til þess að auka samskipti við Japan.“
Samþykkt var á alþingi í síðustu viku þingsályktunartillaga um vilja íslenskra stjórnvalda og þingsins þess efnis að komið verði á fríverslunarsamningi á milli þjóðanna. Hanna Birna segir sendinefndina leggja áherslu á áhuga Íslendinga á fríverslunarsamningi á fundum sínum „og einnig vilja íslenskra stjórnvalda til að koma á tvísköttunarsamningum við Japan. Allt eru þetta stórir hagsmunir fyrir íslenskt viðskiptalíf.“ Hún segir sendinefndina líka skynja mikinn mikinn áhuga og þekkingu á Íslandi, sem komi ekki endilega á óvart í ljósi fyrri ráðherrasamskipta ríkjanna, en sé engu að síður ánægjuleg. „Við skynjum ekkert annað en mikinn vilja hér til að efla þessi samskipti enn frekar.“
Söguleg heimsókn
Heimsókn sendinefndarinnar er í boði vináttuhóps Íslands í japanska þinginu og er tilefni ferðarinnar 60 ára afmæli stjórnmálasamskipta ríkjanna. „Þetta er söguleg ferð að því leiti að þetta er í fyrsta skipti sem japanska þingið býður þingmönnum frá Íslandi til sín og það lýsir auðvitað þeirra áhuga,“ segir Hanna Birna.
Japanir séu líka vel undirbúnir og hafi kynnt sér Ísland vel, m.a. um. „Mér finnst allir þessir fundir hafa verið efnismiklir og góð umræða um þessi mál,“ segir hún og nefnir fríverslunarsamning, tvísköttunarmál, loftferðarsamninga sem dæmi um fundarefni. „Og svo kemur auðvitað alltaf upp áhugi Japana á jarðhitaverkefnum á Íslandi.“
Nefndin hafi þannig til að mynda hitt fulltrúa JBIG banka, sem er opinber þróunarbanki sem veitti Landsvirkjun lán í desember sl. „Það var fyrsta lán sem Japan veitti Íslandi eftir hrun og þeir höfðu áhuga á að fá upplýsingar um stöðuna á Íslandi, m.a. um efnahagsmálin. En annars erum við þó mest að hitta opinbera aðila og munum til að mynda funda með utanríkismálanefnd Japan á morgun.“
Heimild: Mbl