Brúarvirkjun Tungufljóti Biskupstungum- HS Orka áformar að reisa allt að 9,9 megavatta rennslisvirkjun
Orkufyrirtækið HS Orka áformar að reisa allt að 9,9 megavatta rennslisvirkjun, Brúarvirkjun, í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, austan við Geysi í Haukadal. Gert er ráð fyrir að flatarmál lóns yrði um átta hektarar við venjulegt rekstrarvatnsborð.
Í frummatsskýrslu sem verkfræðistofan Mannvit gerði fyrir HS Orku og var birt í dag kemur fram að áhrif af framkvæmdinni á ásýnd frá frístundabyggð á svæðinu eru talin talsvert neikvæð. Það sama á við um áhrif á birkiskóg sem þarf að eyða á fjögurra hektara svæði, votlendi og ónæði vegna umferðar, hávaða og rykmyndunar á framkvæmdatíma.
Mannvit metur breytingar á ásýnd frá helstu ferðamannastöðum óverulega sem og áhrif á fuglalíf, jarðfræði og jarðmyndanir.
Áhrif á önnur gróðurlendi sem raskast eru metin nokkuð neikvæð þar sem umfang þeirra er tiltölulega lítið. Þá eru áhrif á vatnasvið og á veiði og fiskræktarmöguleika laxfiska vera nokkuð neikvæð.
Tungufljót er ein af þverám Hvítár í Árnessýslu. Fljótið er um 40 kílómetra langt og vatnasvið þess er um 720 kílómetrar. Efst heitir áin Ásbrandsá en Tungufljót þar sem Litla-Grjótá fellur til hennar.
Til skamms tíma átti Tungufljót upptök sín í Sandvatni en í því gætir jökulvatns frá Langjökli. Árið 1986 var rennsli úr Sandvatni stíflað til Ásbrandsárinnar og öllu jökulvatni veitt um Sandá í Hvítá. Hefur Tungufljótið verið að
mestu hrein bergvatnsá með lindarvatnsuppruna síðan.
Í skýrslunni kemur fram að virkjunin verði tengd með 33 kílóvolta jarðstreng inn á kerfi RARIK sem rekur dreifikerfið á svæðinu. Ráðgert er að leggja jarðstrenginn í jörðu um 20 km leið að Reykholti, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Heimild: Mbl