Landsvirkjun vill enn minni tengingar við álverð

ruv

Landsvirkjun

Búrfellsvirkjun

Forstjóri Landsvirkjunar vill draga enn frekar úr tengingum við álverð, sem nú eru einn þriðji af tekjum fyrirtækisins. Aukin orkusala bætti afkomu fyrirtækisins þrátt fyrir að verð á áli hafi lækkað.

Landsvirkjun hagnaðist um tæpa ellefu milljarða króna í fyrra, sem er aðeins betri afkoma en árið áður. Þetta gerðist þrátt fyrir lægra verð á áli og óvissu á fjármálamarkaði. „Meginástæðan á síðasta ári var að orkusalan jókst umtalsvert, um 7% í magni, sem vann mjög á móti þeim tekjusamdrætti sem varð vegna lægra álverðs.“

Það hjálpar líka að dregið hefur úr álverðstengingum. Árið 2009 voru 2/3 af tekjum Landsvirkjunar tengdir álverði, nú aðeins 1/3. En það á að draga enn frekar úr slíkum tengingum. „Við teljum ásættanlegt að vera með ákveðna tengingu. Álið er áhugaverður málmur sem á sér bjarta framtíð. En hlutfallslega teljum við það ennþá of hátt.“

Næstu stóru orkukaupendur eru kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík og kísilverksmiðja PCC á Bakka. Hörður býst svo við að gagnaverum fjölgi á næstu árum.

Næstu virkjanaframkvæmdir eru stækkun Búrfellsvirkjunar og Þeistareikjavirkjun. Hörður vonast til að sú næsta þar á eftir verði Hvammsvirkjun í Þjórsá. Þar þarf, að áliti Skipulagsstofnunar, að meta áhrif á útivist, ferðaþjónustu og landslag upp á nýtt og er áætlun um það nú í kynningu. Ekki er ljóst hvenær því lýkur. „Þessi ferli eru með óljósa tímaramma og oft halda aðilar ekki tímatakmarkanir þannig að það er erfitt að meta það í dag, en vonandi tekur það ekki of langan tíma.“

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: