Marshall húsið – Endurbyggt fyrir listamenn
Smella á mynd til að sjá sjónvarpsumfjöllun
Marshall-húsið var byggt árið 1948 og var að hluta til fjármagnað af Marshall-aðstoðinni sem Íslendingar fengu frá Bandaríkjamönnum eftir seinna stríð. Húsið var upphaflega byggt fyrir síldarvinnslu en var lengst af notað til bræðslu.
Síðustu ár hefur húsið staðið autt. Hugmyndin að nýju hlutverki hússins kviknaði hjá tveimur arkitektum: „Þetta vakti strax athygli okkar og lét okkur ekki í friði og á svipuðum tíma að Nýlistasafnið og Kling og bang væru að verða húsnæðislaus. Og þetta kemur fram í þessu „konsepti“ sem Marshall-húsið lítur út fyrir að verða,“ segir Ásmundur Hrafn Sturluson, arkitekt.
Þorgerður Ólafsdóttir er formaður Nýlistasafnsins: „Á undanförnum 15 árum hefur Nýló flutt fjórum sinnum. Svo nú sjáum við fram á að geta skipulagt sýningar starfseminnar vel fram í tímann og sjóndeildarhringurinn blasir bara fagurt við.“
Reykjavíkurborg mun leigja húsnæðið af HB Granda til 15 ára, en Ólafur Elíasson verður einnig með aðstöðu í húsinu. „Okkur leist strax vel á þessa hugmynd og vonumst til að sambýlið milli listar og undurstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar verði gott,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
„Reykjavíkurborg er að breytast, miðborgin er að breytast og hún er að teygja sig hingað út á Grandann og að okkar mati. Þetta hús spilar lykilhlutverk í þeirri útvíkkun,“ segir Steinþór Kári Kárason, arkitekt.