Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi eru beðnir að sjóða allt neysluvatn
Mars 2015
Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi eru beðnir að sjóða allt neysluvatn. Svo virðist sem yfirborðsmengun hafi komist í vatnsból á Svalvarðsströnd sem talin er tengjast leysingum.
Niðurstöður úr sýnatökum gefa vísbendingu um mengun, en endanleg niðurstaða mun liggja fyrir á mánudaginn, að því er fram kemur í tilkynningu frá Norðurorku. Svipað atvik kom upp fyrir nokkrum árum en þá var tekin ákvörðun um að bora holu inn í klöpp á lindasvæðinu. Sú aðgerð tókst vel og gefur holan stóran hluta af því vatni sem þörf er fyrir í sveitarfélaginu. Enn eru nokkur eldri ból í notkun og talið er líklegt að eitt af þeim hafi mengast.
Í tilkynningunni segir að búið sé að taka hluta af bólunum úr notkun á meðan gerðar verði frekari mælinar. Norðurorka reiknar með því að leita frekara vatns með borun viðbótarholu á svæðinu, en minni líkur eru á yfirborðsmengun þar sem vatnið er sótt um hundrað metra inn í bergið.
Send hafa verið smáskilaboð til allra íbúa í Svalbarðsstrandahreppi og hringt í þá sem ekki eru með farsíma.
Heimild: Vísir