2015 Metár í heitavatnsnotkun eða tæplega 83 milljónir rúmmetra
Met var sett í vatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári.Heildarnotkunin var tæplega 83 milljónir rúmmetra. Það er um 10% meira en 2014 og 4% meira en en á síðasta metári, 2013, segir í frétt frá Veitum.
Aukningin milli áranna 2014 og 2015 er sú mesta sem sést hefur frá aldamótum, að minnsta kosti. Sívaxandi hluti vatnsins kemur frá virkjunum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu; Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun.
„Heitavatnsnotkunin helst mjög í hendur við tíðarfar þar sem um 90% heita vatnsins fer til húshitunar. Árið fór heldur kuldalega af stað og voru allir fyrstu sex mánuðir ársins metmánuðir miðað við fyrri ár.
Þá þegar var útlit fyrir að notkunarmetið félli. September var mildari en oft áður en síðustu mánuði ársins var notkunin svipuð og 2013 og þegar upp var staðið í árslok reyndist heildarnotkun á árinu nema 82,7 milljónum rúmmetra. Fyrra notkunarmet er frá árinu 2013. Þá var heildarnotkun 79,0 milljónir rúmmetra. Auk lofthita hafa sólarstundir og vindur áhrif á vatnsþörf til húshitunar. Aukið húsrými sem hita þarf upp hefur auðvitað líka sitt að segja í þróun heitavatnsnotkunar,“ segir í fréttatilkynningu.
Heimild: Mbl