Hvernig ástand er á neysluvatni á Íslandi ?

Heimild:  Vísindavefurinn

 


Neysluvatnsauðlindin

Geislavirkni neysluvatniNægilegt hreint vatn til neyslu hefur verið talið auðfengið og ódýrt á Íslandi. Úrkoma er mikil, eða 2000 mm á ári að jafnaði. Ísland er einnig eitt strjálbýlasta land í Evrópu ef íbúafjöldanum er dreift á allt flatarmál landsins, eða um 3 íbúar á ferkílómeter. Flestir Íslendingar búa hins vegar á tiltölulega afmörkuðu svæði og fyrir vikið er hlutfall þéttbýlisbúa mjög hátt, eða 91,7% þjóðarinnar árið 1995. Á Íslandi eru aðeins 10 þéttbýlisstaðir með yfir 2.000 íbúa og 58,4% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu. Þéttbýlissvæðin eru aðallega við ströndina, þannig að aðeins lítill hluti þjóðarinnar býr inn til landsins.Þorri landsmanna hefur greiðan aðgang að fersku vatni og ýmsa möguleika á nýtingu þess. Mestallt vatn sem fer til neyslu, eða rúmlega 95%, er ómeðhöndlað grunnvatn. Það fæst úr lindum, borholum og brunnum. Nokkur sveitarfélög eru þó enn háð yfirborðsvatni. Yfirborðsvatn er í flestum tilfellum geislað með útfjólubláu ljósi til að eyða örverumengun sem berst í vatnið frá dýrum og úr jarðvegi. Þessi aðferð er oftast nægileg til að tryggja öryggi neysluvatnsins. Því miður eru nokkrir þéttbýlisstaðir sem enn nota ómeðhöndlað yfirborðsvatn. Eftirlitsrannsóknir sýna að þetta vatn er oft mengað og stenst ekki ákvæði neysluvatnsreglugerðar.

 

Gæði neysluvatns

Helstu ástæður þess að neysluvatnið stenst ekki gæðakröfur eru kólímengun og of hár heildargerlafjöldi ræktaður við 22°C. Oftast stafar þessi mengun af tímabundnum vandamálum í vatnsbólum vegna mikillar úrkomu eða leysinga. Einnig getur verið um að ræða fjölgun örvera í dreifikerfum. Kólímengun stafar oftast af slæmum frágangi vatnsbóla, af notkun á yfirborðsvatni eða því að yfirborðsvatn mengar grunnvatn. Saurkólígerlar sem finnast af og til í neysluvatni eru nokkuð áreiðanleg vísbending um saurmengun frá dýrum eða mönnum og sterk vísbending um að vatnið geti verið heilsuspillandi.Algjör undantekning er að sýklar finnist í neysluvatni hér á landi og aðeins er vitað um tvær staðfestar hópsýkingar af völdum neysluvatns á undanförnum 15 árum.

Í báðum tilvikum var um að ræða neyslu á yfirborðsvatni, sem ekki var meðhöndlað á nokkurn hátt. Stakar sýkingar, bæði staðfestar og óstaðfestar, eiga sér stað hér á landi, fyrst og fremst vegna neyslu mengaðs yfirborðsvatns. Í þeim tilvikum sem sýkingar hafa verið staðfestar er oftast um að ræða bakteríusýkingar af völdum kampýlóbakter, en mjög líklegt er að bæði veirur og sníkjudýr komi við sögu í mörgum óstaðfestum sýkingum.Reglulega er fylgst með örveruástandi neysluvatns hér á landi og sýnatakan fer fram í vatnsbóli eða dreifikerfi.

Flest heilbrigðiseftirlitssvæði fylgja ákvæðum neysluvatnsreglugerðar um fyrirkomulag og tíðni greininga og því er fjöldi rannsóknarniðurstaða mikill fyrir landið í heild, eða að meðaltali um 1.000 á ári frá árinu 1995. Á þessu tímabili hefur yfir 90% sýna staðist þær gæðakröfur sem gerðar eru til örveruástands vatnsins. Örveruástand neysluvatns er því gott hér á landi og á það sérstaklega við um vatn frá vatnsveitum sem dreift er til stærsta hluta þjóðarinnar. Einkaveitur eru lakari, en misgóðar og tengist það oft frágangi við veituna eða lagnakerfið sem oft er auðvelt að lagfæra. Best er vatn úr borholum, því næst uppsprettum og lindum. Í þriðja sæti er vatn úr brunnum en lakast er yfirborðsvatn.Svipað má segja um óhreinindi vatns.

Grunnvatn er að jafnaði hreint og laust við grugg. Þó getur grugg sést í grunnvatni úr ármöl þegar ár eru í vexti og veitilagið er þunnt. Yfirborðsvatn er aftur á móti iðulega mengað af mold og öðrum óhreinindum.Reglulegar kerfisbundnar mælingar á styrk uppleystra efna í neysluvatni á Íslandi eru nýhafnar og gögn hafa ekki enn verið tekin saman í yfirlit. Fram að þessu hafa efnamælingar á neysluvatni einkum tengst virkjun nýrra vatnsbóla, innra eftirliti vatnsveitna og á síðari árum áhuga aðila á framleiðslu og útflutningi átappaðs vatns.Efnamælingar á íslensku vatni almennt benda til þess að styrkur uppleystra steinefna, þungmálma og annarra hættulegra efna, sé langt undir viðmiðunarmörkum.

Lífræn þrávirk efni og varnarefni hafa aldrei greinst yfir greiningarmörkum þar sem mælingar hafa verið gerðar á neysluvatni. Helstu hættur á efnamengun hafa leynst í lagnakerfinu sjálfu og þeim efnum sem þar hafa verið notuð fyrr á öldinni.Verið er að taka upp aukið eftirlit með efnasamsetningu vatns sem dreift er frá vatnsveitum til almennings, fyrirtækja og stofnana. Með því er verið að bregðast við kröfum tímans um góða upplýsingagjöf um allt það sem getur varðað velferð og hagsmuni neytenda, enda er neysluvatn skilgreint sem matvæli. Stöðugt er verið að efla mengunarvarnir á aðrennslissvæðum vatnsbóla, meðal annars með gerð vatnsverndarsvæða og setningu strangra reglna um umferð, framkvæmdir og meðferð efna á þeim.

 

Áhrif landbúnaðar á vatnsgæði

Áburðarnotkun í landbúnaði náði hámarki um 1980 þegar notuð voru um 15,000 tonn af tilbúnum köfnunarefnisáburði á ári. Síðan hefur dregið verulega úr notkun tilbúins áburðar og hún er í dag um 11,000 til 12,000 tonn á ári. Lífrænn húsdýraáburður er talinn svara til um 2,000 tonnum af köfnunarefni. Meðaláburðarnotkun í landbúnaði er um 110 kg N/ha. Þegar þess er gætt að ræktað land er aðeins um 1,4% af heildarflatarmáli Íslands og úrkoma eins mikil og raun ber vitni er ekki hætta á alvarlegrar nítratmengun frá landbúnaði.

Styrkur nítrats er í flestum tilvikum mjög lágur í neysluvatni og ávallt verulega undir viðmiðunarmörkum, en mælingar ná yfir neysluvatn fyrir meira en 70% þjóðarinnar. Myndin hér að neðan sýnir styrk nítrats í íslensku neysluvatni eins og hann mældist í sýnum sem tekin voru á tímabilinu 1999-2002 (gögn frá Umhverfisstofnun). Eins og myndin ber með sér eru gildin mjög lág en víða erlendis er hár styrkur nítrats í neysluvatni vandamál.

Útskolun á næringarefnum úr áburði í ár og vötn hefur verið áætluð í einstökum tilvikum og fyrir landið í heild. Einnig hafa næringarefni verið mæld í ám og vötnum á síðustu árum. Í 37 af 39 vötnum sem mæld voru haustin 1997 og 1998 var styrkur uppleysts köfnunarefnis á formi nítrats (NO3-N) undir 0,005 mg N í líter. Styrkurinn var ávallt undir 0,05 mg N í lítra. Í samanburði við önnur lönd er hér um lág gildi að ræða. Um styrk köfnunarefnis í stöðuvötnum á Norðurlöndunum má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig er mengun grunnvatns á Íslandi samanborið við Norðurlöndin? Notkun varnarefna í landbúnaði er mjög lítil á Íslandi (7 tonn árið 1994). Ástæðan er sú að landbúnaður byggist að mestu á framleiðslu á grasi í fóður fyrir búfé og ekki er þörf á notkun varnarefna í þeirri framleiðslu. Áhrif varnarefna á vatnsgæði eru því metin mjög óveruleg.

 

Fráveitur þéttbýlisstaða

Í fráveitumálum þéttbýlisstaða er víða úrbóta þörf. Flestir þéttbýlisstaðir liggja hins vegar við ströndina þannig að losun frá þeim hefur ekki nema í fáum tilvikum áhrif á ferskvatn. Ísland hefur lögleitt kröfur og markmið Evrópusambandsins í fráveitumálum. Til að stuðla að úrbótum og framkvæmdum í fráveitumálum setti Alþingi lög árið 1995 um stuðning ríkisins við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Við setningu laganna var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við fráveituframkvæmdir gæti numið 10-20 milljörðum króna og kostnaður einstakra sveitarfélaga svaraði til 30-90 þús. kr. á íbúa.Sveitarfélög landsins eru komin misjafnlega langt á veg með framkvæmdir og stóru sveitarfélögin eru komin lengst. Ljóst er að þegar úrbótum í fráveituframkvæmdum verður lokið hefur miklum áfanga verið náð til verndar vatni.

 

Þungmálmar og þrávirk efni

Í landinu er enginn iðnaður sem losar þungmálma í ferskvatn að einhverju marki, svo vitað sé. Losun er því að mestu frá almennri íbúabyggð, minni iðnaði og umferð. Lágur styrkur þessara efna sem mældur er í fersku vatni (ám) í landinu er því náttúrulegur bakgrunnsstyrkur þessara efna miðað við íslenskar aðstæður.Þar sem styrkur þrávirkra lífrænna efna hefur verið mældur í lífríki ferskvatns (Þingvallavatn) er hann mjög lágur. Í Þingvallavatni mældist aðeins styrkur HCB yfir greiningarmörkum í silungi. Í seti mælist styrkur þessara efna í flestum tilvikum undir greiningarmörkum undir yfirborðslaginu, en í nokkrum tilvika rétt yfir greiningarmörkum í yfirborðslaginu. Telja má víst að meginorsök fyrir tilvist þessara efna í íslensku lífríki sé mengun sem borist hefur til landsins með loftstraumum.

Fleira áhugavert: