Milljarða sparnaður með rafknúnu skipi
Sparnaður vegna olíukaupa yrði 3,4 milljarðar króna á tuttugu ára tímabili, yrði nýr Herjólfur að fullu eða mestu leyti rafknúinn. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra til Oddnýjar G. Harðardóttur þingmanns Suðurkjördæmis.
Hér má sjá svörin við spurningum Oddnýjar.
1. Er gert ráð fyrir því við hönnun nýs Herjólfs að ferjan geti verið rafdrifin að hluta eða öllu leyti og hlaðin í landi? Ef ekki, hvað má gera ráð fyrir miklum kostnaðarauka við að bæta þeim möguleika við?
Ferjan er hönnuð til að verða eingöngu rafdrifin. Hún kemur þó sem „tvinnferja“ sem þýðir að hún verður knúin dísilvélum sem framleiða rafmagn og hlaða inn á rafhlöður.
Vegna þess hve ör þróun er í framleiðslu á rafhlöðum og að notkun rafdrifinna ferja er á byrjunarstigi, og aðeins á styttri siglingaleiðum en leiðin á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja er, var ákveðið að stíga skrefið ekki til fulls í rafvæðingu ferjunnar. Ein af helstu ástæðum þess er að í tilviki Herjólfs er verið að hanna skip sem þarf að sigla á erfiðri siglingaleið. Af þeim sökum er ekki talið skynsamlegt að nýta slíkan búnað til fulls fyrr en meiri reynsla er komin á hann.
2. Ræður flutnings- og dreifikerfi raforku í höfnum Herjólfs við að standa undir hleðslustöðvum fyrir ferjuna?
Miðað við þá tækni sem er fyrir hendi í dag þarf að styrkja raforkukerfið eða koma fyrir hleðslustöð í höfnunum.
3. Hve mikill yrði sparnaður í olíukaupum á ári og á líftíma ferjunnar ef hún yrði að mestu eða öllu leyti rafdrifin?
Miðað við olíuverð í dag er lauslegt mat að um 170 millj. kr. spöruðust árlega vegna olíukaupa. Miðað við 20 ára líftíma yrði sparnaðurinn 3,4 milljarðar kr. Frá því drægist síðan kostnaður við rafmagn.
4. Hvað gæti slík lausn dregið mikið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og annarra skaðlegra efna á ári og á líftíma ferjunnar?
Reikna má með því að verði Herjólfur rafdrifinn að öllu leyti verði engin losun gróðurhúsalofttegunda eða annarra mengandi efna. Hér er því gert ráð fyrir að samdráttur í losun felist í því að framleiðsla rafmagns með dísilolíu til að knýja ferjuna félli niður. Áætluð ársnotkun dísilolíu er um 1.200 tonn. Miðað við tölur um notkun nýrra dísilvéla má reikna með að losun vegna olíubrennslu yrði sem samsvarar um 3.800 tonnum af CO2 og að losun af NOx yrði líklega um 900 kg en sú losun er mjög háð því hvernig vélin er keyrð. Á 20 ára líftíma yrði því samdráttur í losun, miðað við þessar forsendur, um 76.000 tonn af CO2.
5. Hver er reynsla af rekstri rafdrifinna ferja sem teknar hafa verið í notkun í Noregi og Danmörku?
Vegagerðinni er einungis kunnugt um eina rafdrifna ferju í Noregi og var hún tekin í notkun á þessu ári. Of snemmt er að ræða um reynslu af rekstri hennar enn sem komið er.
6. Gæti reynsla af rekstri rafdrifins Herjólfs nýst Íslendingum við rafvæðingu annarra skipa?
Rekstur rafdrifins skips í mikilli notkun á erfiðri siglingaleið þar sem jafnframt eru gerðar miklar kröfur mun án efa skila mikilvægum rekstrarlegum og tæknilegum upplýsingum og nýtast við sambærileg verkefni hér á landi.
Heimild: Eyjar.net