Norðurslóðir verða forðabúr hreinnar orku

Rúv

Smella á mynd til að heyra viðtal

Ólafur Ragnar Grímsson - Norðurslóðir verða forðabúr Orku

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fagnar miklum árangri af Arctic Circle-samstarfinu. Málefni norðurslóða og áhrif loftslagsbreytinga séu orðin meginviðfangsefni alþjóðastjórnmála. Þá sé viðurkennt að ekkert verði afhafst án rannsókna . Ólafur Ragnar var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

 

Eykur mikilvægi Íslands

Ekki er víst að allir átti sig á því hversu stóran sess Arctic Circle-ráðstefnan hefur fengið á hinu alþjóðlega sviði. „Ég held að okkur sé að takast að gera Ísland að þorpstorgi norðurslóða,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, og bætir því við að sérstakt fagnaðarefni sé að með þessum árlegu ráðstefnum í Reykjavík hafi norðurslóðir færst á nýjan stað í hinni alþjóðlegu umræðu. „Þetta var að nokkru leyti jaðarmál, ráðstefnurnar voru margar, sérhæfðar og fámennar. En á tveimur árum hefur okkur tekist að gera Arctic Circle ekki bara að fjölmennasta og fjölþættasta vettvangi norðurslóða á hverju ári, heldur að einni aðalráðstefnunni um alþjóðamál sem haldin er í veröldinni,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson á Morgunvaktinni.

Hann segir mikilvægt fyrir Íslendinga að átta sig á því að þetta eykur mikilvægi landsins og fjölgar tækifærum fyrir okkur að láta gott af okkur leiða. Ólafur Ragnar segir að ef einhver efast enn um sess ráðstefnunnar, þá nægi auðvitað að benda á að um 2.000 manns frá 50 ríkjum hafi sótt ráðstefnuna í Hörpu, áhrifafólk úr vísindasamfélagi og stjórnmálum. Þá hafi François Hollande, Frakklandsforseti, einn valdamesti maður heims, gert sér ferð hingað og haldið ræðu. Og í þriðja lagi hafi verið gerð grundvallarbreyting á bandaríska stjórnkerfinu að undanförnu. Obama forseti hafi stofnað samhæfingarráð í Hvíta húsinu, sem stýrir öllum stofnunum í Bandaríkjunum á þessu sviði. Forseti Íslands bendir á að Mark Brzezinski, sem er æðsti yfirmaður þessa samráðsvettvangs í Hvíta húsinu, hafi mætt á Arctic Circle til að túlka stefnu Bandaríkjanna í norðurslóðamálum. Þá hafi forseti Kína og kanslari Þýskalands sent sína fulltrúa.

Tækifæri og ógnir

Flestir gera sér grein fyrir þeim ógnum sem loftslagsbreytingar fela í sér fyrir norðurslóðir, ekki síst súrnun hafsins. En er rétt að tala í sama mund um tækifæri? Ólafur Ragnar Grímsson segir að það sé óhjákvæmilegt, en þá verði að hafa í huga um hversu stórt svæði sé að ræða: Alaska, stóran hluta Kanada, Grænland, sjö tímabelti Rússlands og sjálft norðurskautið og hafsvæðið í kring. „Og þarna býr fólk,“ minnir hann á – og það fólk eigi rétt á að nýta sér möguleika til uppbyggingar. En á móti þeim tækifærum sem eru að opnast með auknum samgöngum eru líka ógnanir. Ólafur Ragnar bendir á að kínverska heimskautastofnunin hafi sýnt leiðtogum Kína fram á það að hin hraða bráðnun íss í okkar heimshluta búi til ofsaveður í Kína og hafi leitt þar til gríðarlegrar eyðileggingar.

Vísindi og rannsóknir í fyrsta sæti

Ólafur Ragnar Grímsson bendir á að Ísland sé í þeirri stöðu að geta annars vegar nýtt rannsóknir á bráðnun jökla landsins og um leið sé landið nánast á miðju þessa svæðis, sem skapi margvíslega möguleika í þjónustu og siglingum. En um leið tekur hann undir varnaðarorð um mikilvægi ábyrgrar auðlindasóknar og þar hafi samtal atvinnulífs og vísindasamfélags haft mikil áhrif. „Mér hefur sýnst að á síðustu tveimur eða þremur árum hafi stórfyrirtækin í heiminum, olíu- og námafyrirtækin, orðið miklu ábyrgari“.

Hann segir að myndin af norðrinu sem vettvang nýs  gullæðis hafi vikið fyrir ábyrgu samtali vísindasamfélagsins og þeirra sem stýra fjárfestingum. Nú komi fulltrúar þessara stóru efnahagsvelda heimsins saman í Reykjavík og segja: „Vísindin og rannsóknirnar eru í fyrsta sæti. Við munum aldrei aðhafast neitt á norðurslóðum nema það rími vel við niðurstöður rannsókna og vísinda. Það er náttúrulega algjör grundvallar breyting,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson. Hann fagnar því að spenna í heimspólitíkinni hafi ekki truflað þetta starf. Bandaríkjamenn og Rússar hafi kappkostað að halda áfram samvinnu sinni í norðurslóðamálum þrátt fyrir ágreining um önnur efni.

Hrein orka frekar en olíuvinnsla

Forseti Íslands bendir á að þrýstingur á olíuvinnslu á norðurskautinu hafi minnkað að undanförnu og til greina komi að afmarka tiltekið svæði þar sem vinnsla olíu verði óheimil. En hann vill að umræðan færist frá tali um olíuvinnslu yfir í það að fjalla um nýtingu hreinnar orku svæðisins, sem losnar úr læðingi við bráðnun. Þar eigi norðlægar þjóðar mikla möguleika, bæði hvað varðar vatnsföll og vindorku. „Norðurslóðir geta orðið forðabúr hreinnar orku, a.m.k. fyrir meginland Evrópu, Bretland og Norður-Ameríku,“ segir Ólafur Ragnar, og bendir á að Íslendingar geti lagt mikla þekkingu á þessu sviði af mörkum.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: