Gamall kolaofn eða nútímaarinn ( sá sem andar að sér lofti mettað 1% kolsýringi CO á sér enga lífsvon )

mbl

1.október 2008      

 

Kolaofn

Lífið þarf engan veginn að vera tómur bölmóður hér á landi, langt frá því. Það eru fáar þjóðir sem búa við jafn hreina og ódýra orku til upphitunar og við Íslendingar, jarðvarminn er að mörgu leyti miklu dýrmætari orkugjafi en olía. En það er ótrúlega stutt síðan við fórum að nýta jarðvarmann, hitaveituvæðing byggð á jarðvarma hefur í raun orðið á síðustu 50-60 árum og ekki eru meira en hundrað ár síðan hitakerfi byggð á upphituðu vatni, miðstöðvarhitun, voru fyrst sett í hús á Íslandi.

En hvernig hituðu menn hýbýli sín fyrir miðstöðvarhitun og hitaveituvæðingu?

Kolaofnar voru mjög algengir á betri heimilum í bæjum og víða til sveita. Ákaflega óhentug hitatæki sem nýttu orkuna mjög slaklega eins og hinir þekktu arnar sem svo algengir voru í Bretaveldi. Kolaofnar munu líklega vera fátíðir í dag en arftökum gamla breska arinsins fjölgar talsvert hérlendis. Þeir brenna ekki lengur kolum heldur annaðhvort viði eða gasi og nú munu komnir á markað arnar sem brenna spritti.

Það er vissulega ástæða til að vanda til frágangs og uppsetningar, vera vel á verði þegar þeir eru notaðir og tryggja að eldsmaturinn logi hreinn og eins vel og unnt er. Þegar gömlu kolaofnarnir voru notaðir fyrr á árum bjuggu menn yfirleitt ekki við jafn þétt hús og byggð eru í dag. Hvert opið eldstæði, burt séð frá hverju það brennir, sogar til sín loft og bruninn verður aldrei fullkominn nema eldurinn fái nægjanlegt súrefni. Í okkar þéttu húsum samtímans verðum við því að vera vel á verði til að tvennt sé tryggt; nægjanlegt aðstreymi lofts og greið leið brunninna efna upp um reykháf. Jafnvel við notkun á gashellum til suðu og matargerðar ætti að hafa þetta í huga; að loftræsing sé í lagi, gluggi opinn.

Þetta er í beinu framhaldi af síðasta pistli þar sem varað var við „vágesti í leyni“ en það er ekki ólíklegt að hann hafi valdið hinum hörmulegu banaslysum í Hellisheiðarvirkjun.

CO mælir. Slíkt öryggistæki svarar samstundis hvort hætta er á ferðum

Fréttaflutningur af því slysi hefur oft verið æði ruglingslegur. Oft er hlutum snúið á hvolf og hugtakaruglingur of algengur. Þessi vágestur sem um er rætt heitir á íslensku kolsýringur og ber skammstöfunina CO. En oft er einnig notað hálfíslenskt orð, kolmonoxíð, eða jafnvel enska heitið carbon monoxíde, öllum þessum heitum fylgir skammstöfunin CO enda mismunandi heiti á sömu lofttegund. Það verður að tryggja að eins lítið af þessu efni falli til við bruna í gastækjum svo sem í örnum eða gasljósum í þröngum rýmum og hægt er.

Hitt efnið sem ætíð fellur til við kolefnisbruna er koltvísýringur sem ber skammstöfunina CO2. Stundum er einnig notað hálfíslenskt orð, koldíoxíð, og ekki ólíklegt að fyrir augu beri enska heitið carbon dioxide. Það er ekki furða þó að þetta geti skolast til hjá hinum færustu fjölmiðlamönnum. Þá má einnig benda á að það er ekki lítið búið að staglast á koltvísýringi CO2 sem hinni skelfilegu gróðurhúsalofttegund sem hiti svo andrúmsloftið að eftir tvær aldir verði allir jöklar horfnir af Íslandi. Þetta stóð í lærðri grein í Morgunblaðinu nýlega og þarf mikla rýni inn í framtíðina til að geta fullyrt að hiti á jörðu hér muni hækka stöðugt næstu 200 árin!

En höldum okkur við íslensku heitin kolsýringur CO og koltvísýringur CO2 en síðarnefnda lofttegundin fellur alltaf til við kolefnisbruna og er ekki skaðleg lifandi verum í svo litlu magni þó að hún geti verið það við meiri mettun. En kolsýringur CO er mun hættulegri. Í breskum stöðlum er það viðmið að hlutfallið milli þessara lofttegunda, sem til falla við bruna, sé sá að ef koltvísýringur CO2 er 1% megi kolsýringur CO ekki vera yfir 0,02% og jafnframt að tryggt sé að hvorutveggja berist hratt úr húsi og ekki inn í hýbýli.

Það er engan veginn verið að mæla gegn því að húseigendur setji upp hjá sér arna og njóti þess að horfa í glæður eldsins, sé það rétt gert er engin hætta á ferðum. En í upphafi rafvæðingar urðu mörg alvarleg slys, þar á meðal banaslys, en við höfum lært að umgangast rafmagnið. Við þurfum einnig að læra að umgangast kolefnisbruna í öllu sínum myndum. Gleymum því ekki að sá sem andar að sér lofti sem er aðeins mettað 1% kolsýringi CO á sér enga lífsvon. Þó að honum yrði bjargað í hreint loft er skaðinn skeður. Björgunarlið með súrefnistæki gæti engu breytt, rauðu blóðkornin hafa misst eiginleika sinn til að vinna súrefni, það verður ekki snúið aftur til lífsins.

 

Sigurð Grétar Guðmundsson

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: